Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að tölur yfir smit innanlands undanfarna daga sýni að það er enn smit í samfélaginu og að nauðsynlegt sé að fara varlega eigi að koma í veg fyrir að smit blossi upp líkt og gerðist í haust.
Alls greindust sjö smit innanlands í gær og af þeim voru tveir í sóttkví eða 28,57%. Daginn áður var rúmlega helmingur þeirra sem greindist í sóttkví og segir Þórólfur þetta sýna að það er ekki bara fólk í sóttkví sem er að greinast með Covid-19 heldur er þetta fólk sem er úti í samfélaginu sem er ekki með nein augljós tengsl við smitaða einstaklinga.
Undanfarnar vikur er töluvert um að smit greinist á landamærunum þrátt fyrir að afar fá flug séu að koma til landsins. Að sögn Þórólfs eru allt að 10-20% farþega að greinast með virk smit í sumum þeirra flugvéla sem hingað koma til lands. Flest smit hafa greinst meðal farþega sem eru að koma með flugi frá Póllandi sem að sögn Þórólfs endurspeglar uppgang faraldursins þar og víðar. „Eins verður að hafa í huga að flugvélar sem koma hingað til lands, til að mynda frá Danmörku, eru ekki bara að flytja Dani hingað heldur fólk frá mörgum löndum. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir hvað myndi gerast ef öll þessi smit færu inn í landið. Flestir sem greinast með smit eru flestir með íslenska kennitölu. Fólk sem býr hér og blandast því örugglega við aðra í samfélaginu,“ segir Þórólfur.
Spurður út í framhaldið, það er tillögur að breytingum á sóttvarnareglum, segir Þórólfur að hann muni væntanlega skila inn tillögum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um helgina. Ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um hvenær það verður enda að mörgu að hyggja. Hann hafi vonast til þess að geta lagt til að þær aðgerðir sem gripið yrði til þegar núgildandi reglugerð rennur út 2. desember gætu gilt fram yfir jól og jafnvel áramót. „Þar sem áfram eru samfélagsmit í gangi er kannski ekki ráðlegt að gera það. Þetta sýni að það sem er í gildi í dag er ekki víst að það gildi á morgun sama hvað reynt sé að sjá fram í tímann,“ segir Þórólfur þannig að enn er óvíst hvort reglugerðin gildir í lengri tíma eða skemmri eða hversu stór skrefin verða sem stigin verða í afléttingu hafta.
Þórólfur segir að það sé í höndum ráðherra að taka ákvörðun um hvernig þessu verður háttað en það sem hann sé að skoða núna er hvort hægt sé að taka stærri skref og láta gilda lengur eða taka lítil en fleiri skref, líkt og hefur verið gert hingað til.
„Það er mjög mikil óvissa núna út af aðventunni og jólum. Bæði eru að greinast mörg smit á landamærunum auk þess sem órói í samfélaginu fylgir aðventunni svo sem þegar fólk hópast í búðir,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.