Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að ráðamenn hefðu betur hlustað á varnarorð hennar í febrúar vegna kórónuveirufaraldursins þegar Inga lagði til að landamærum Íslands yrði lokað. Þess í stað hafi hún verið höfð að háði og spotti.
Þetta kom fram í máli Ingu á Alþingi í dag.
„Mánuði fyrir fyrsta tilfellið stóð ég í þessum ræðustól og spurði stjórnvöld hvernig þau ætluðu að bregðast við hugsanlegum heimsfaraldri kórónuveiru,“ sagði Inga.
Hún kvaðst hafa heyrt lítið annað en háð og spott. „Maður hefur jafnvel verið tekinn fyrir í Kastljósi allra landsmanna og sallaður þar niður eins og hálfgerður bjáni,“ sagði Inga.
Hún sagði að ef hún réði málum værum við eki að glíma við grímuskyldu, fjarlægðamörk, lokunarstyrki og mikla skuldasöfnun ríkissjóðs.
„Við hefðum getað lokað landamærunum og algjörlega komið í veg fyrir það að þessi veira væri að ríða hér röftum um samfélagið, sem raun ber vitni,“ sagði Inga.