Vekur athygli á átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg.
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið verður baðað roðagylltri birtu næstu sextán daga til að vekja athygli á alþjóðlegu átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Sömuleiðis hafa sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og París verið lýst upp í roðagylltum lit. 

Átakið hefst í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum og mun ljúka þann 10. desember, sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn.

Markmið átaksins er að knýja á um afnám á kynbundnu ofbeldi og hvetja til opinnar umræðu og vitundarvakningu meðal almennings sem getur leitt til frekari aðgerða. Í ár er lögð áhersla á að bregðast þurfi við auknu ofbeldi gagnvart konum í kjölfar heimsfaraldursins. 

Heimsfaraldurinn ýtir undir ýmsa áhættuþætti sem auka hættuna á ofbeldi gagnvart konum, svo sem matarskort, atvinnuleysi, efnahagslegt óöryggi og félagslega einangrun. Því hefur aldrei verið mikilvægara en nú að beina sjónum að þessu alvarlega vandamáli sem UN Women hafa fjallað um sem skuggafaraldurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert