Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að hætta á Alþingi. Mun hann þar af leiðandi ekki bjóða sig fram í næstu þingkosningum. Frá þessu greinir hann í kvöld.
„Mér hefur verið heiður að því að starfa með samherjunum góðu í þingflokki VG, öðrum félögum hreyfingarinnar og fólki innan og utan VG um allt land. Ég lýk þessum leiðangri mínum á pólitískum háfjöllum þann 25. september n.k., fari allt eins og til stendur. Fyrsta skrefið er að tilkynna öllum hlutaðeigandi innan VG að ég hyggst ekki láta reyna á framboð til Alþingis í þriðja sinn. Það hef ég nú gert,“ segir í tilkynningu frá Ara.
Hann þakkar öllum sem hann hefur kynnst í gegnum þingstörf sín. „Ég þakka mæta vel öllum, sem ég hef átt alls konar samskipti við vegna þingstarfanna, fyrir þau og skrefin með mér, jafnt innan Alþingis sem utan, um land allt. Við vinnum auðvitað þétt saman, þingflokkurinn, langleiðina fram eftir næsta ári, og ég sömuleiðis í mínu Suðurkjördæmi og víðar.“