Atvinnuþátttaka hefur dregist saman um 3,1 prósentustig á milli ára og atvinnuleysi aukist um 3,5 prósentustig. Hlutfall utan vinnumarkaðar hefur aukist um 3,2 prósentustig og hlutfall starfandi hefur dregist saman um 5,7 prósentustig. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Samtals voru 199.300 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára að jafnaði á vinnumarkaði í október 2020 samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands en það jafngildir 78,3% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 185.700 hafi verið starfandi og 13.600 án atvinnu og í atvinnuleit.
Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 73% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 6,8%. Áætlað er að 55.200 einstaklingar hafi verið utan vinnumarkaðar í október 2020, eða 21,7% af mannfjölda.
Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum voru 13.600 einstaklingar atvinnulausir í október 2020, eða 6,7% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,0% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 75,0%. Borið saman við september 2020 lækkaði árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka um 1,1 prósentustig og árstíðarleiðrétt atvinnuleysi jókst um 1,8 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni árstíðarleiðréttingar á hlutfalli starfandi fólks lækkað um 1,2 prósentustig og leitni atvinnuleysis aukist um 0,6 prósentustig.
„Til þess að einstaklingur teljist atvinnulaus í vinnumarkaðsrannsókn má viðkomandi 1) ekki hafa unnið launaða vinnu í eina klukkustund eða lengur í viðmiðunarvikunni né hafa verið tímabundið fjarverandi frá starfi, 2) þarf viðkomandi að vera í virkri atvinnuleit og 3) geta hafið störf innan tveggja vikna. Við núverandi aðstæður á vinnumarkaði er nokkur fjöldi einstaklinga sem uppfyllir ekki þessa skilgreiningu á atvinnuleysi þrátt fyrir að vera talinn atvinnulaus í daglegu tali. Til dæmis er ekki augljóst að einstaklingur sem er án vinnu, eða veit ekki hvort hann haldi vinnu sinni, hefji strax leit að nýrri vinnu þegar vinnustaðir hafa lokað og fjölmennar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu hafa dregist saman á síðustu mánuðum. Að sama skapi er ekki ljóst hvort einstaklingur í atvinnuleit telji sig geta hafið störf innan skamms tíma ef óvissa ríkir um ráðningarsamband við fyrri atvinnurekanda,“ segir á vef Hagstofu Íslands.
Slaki á vinnumarkaði (e. labour market slack) er til marks um þörf fyrir atvinnu sem ekki hefur verið mætt, bæði hjá þeim sem eru á vinnumarkaði og hjá þeim sem eru utan hans. Hugakið tekur því til stærri hóps en einungis þeirra sem skilgreindir eru atvinnulausir samkvæmt vinnumarkaðsrannsókninni. Til að meta þörf fyrir atvinnu sem ekki er uppfyllt eru eftirfarandi hópar lagðir saman og hlutfall þeirra af vinnuafli og mögulegu vinnuafli metið: 1) Atvinnulausir; 2) fólk í hlutastörfum sem vill og getur unnið meira; 3) tilbúnir að vinna en eru ekki að leita að vinnu; 4) ekki tilbúnir að hefja störf innan tveggja vikna en eru þó að leita sér að vinnu. Síðastnefndu tveir hóparnir teljast almennt vera utan vinnumarkaðar.
Í október var árstíðaleiðréttur fjöldi þeirra sem tilheyra þessum hópi um 33.100 manns eða 15,7% af öllum sem annað hvort eru á vinnumarkaði eða teljast sem mögulegt vinnuafl. Árstíðarsveifla hefur verið nokkuð skýr hvað varðar slaka á vinnumarkaði og slakinn er nánast alltaf lægstur í júlí ár hvert. Þegar horft er á leitnina má sjá að að slaki á vinnumarkaði tók stórt stökk upp á við í lok árs 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar. Leitnin var nokkuð stöðug fram til ársins 2014 þar sem sjá má stefnubreytingu niður á við. Leitnin hefur síðan verið á uppleið frá því í byrjun árs 2019.