Brast í grát þegar hún heyrði af smiti Víðis

María Edwinsdóttir hvetur fólk til að vera skynsamt og halda …
María Edwinsdóttir hvetur fólk til að vera skynsamt og halda sig heima. Ljósmynd/Aðsend

„Það er fátt sem hefur hrætt mig eins mikið og þessi reynsla,“ segir María Edwardsdóttir, sem liggur nú inni á Landspítala í meðferð við Covid-lugnabólgu, í færslu á facebooksíðu sinni. „Þetta er algjört ógeð krakkar! Ég biðla til ykkar allra að vera ekkert að hitta neinn og halda ykkur heima.“

Í samtali við mbl.is segir María að ástand hennar sé á réttri leið. „Ég er búin að vera á súrefni allan sólarhringinn og ég fæ ekki að fara heim fyrr en ég næ að vera án súrefnis í sólarhring. Vonandi verður það í lok næstu viku,“ segir María létt í bragði.

Allir á heimili Maríu smituðust, nema sjö ára gamall sonur …
Allir á heimili Maríu smituðust, nema sjö ára gamall sonur hennar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir þremur vikum byrjaði eiginmaður Maríu að sýna einkenni við kórónuveirunni og fljótlega byrjaði veiran að smitast innan heimilisins. „Við búum sjö á heimilinu, og allir smituðust nema sjö ára strákurinn minn,“ segir María, en hún var flutt á spítala rúmlega viku eftir að hún byrjaði að finna fyrir einkennum.

Hvetur fólk til skynsemi

„Þetta er algjör hryllingur,“ segir María. „Ég er búin að vera á víruslyfjum, sýklalyfjum, steralyfjum, lungnalyfjum. Þetta er ógeð.“

Hún segir að það hafi verið hrikalegt að sjá tölur gærdagsins, en 21 greindist með kórónuveiruna á föstudag. „Ég fór að grenja þegar ég sá að Víðir væri kominn með þetta.“

María segist afar þakklát starfsfólkinu á Landspítala.
María segist afar þakklát starfsfólkinu á Landspítala. Ljósmynd/Aðsend

María hvetur fólk til að vera skynsamt og taka ekki óþarfa áhættu. „Það er aldrei of varlega farið. Þarftu að fara í þessa búðaferð? Þarftu að hitta vin þinn? Við verðum að halda meira í okkur.“

Þótt hún sé bundin við spítalarúm skipulagði María, með hjálp góðra vina, afmælisveislu fyrir tvíburana sína. „Ef fólki finnst það þurfa að útrétta þá gat ég skipulagt veislu úr rúmi á spítala, þannig að það þarf að hætta þessu rugli og vera heima hjá sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert