„Þetta er mjög svipað og í gær. Það er tekið meira af sýnum og fleiri eru í sóttkví, en þetta er að mestu nánast eins. Faraldurinn er í línulegum vexti eins og þetta virðist vera núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
21 smit greindist innanlands í gær. Af þeim voru 13 í sóttkví, en átta utan sóttkvíar. Segir Þórólfur að stærstan hluta smita síðustu daga megi rekja til einnar hópmyndunar. Að hans sögn var um sakleysislega hópmyndun að ræða.
„Þetta getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna biðla ég til fólks að fara varlega og vera ekki að hittast. Þá á fólk ekki að vera innan um aðra ef það er með einkenni og á að fara í sýnatöku,“ segir Þórólfur og bætir við að ótímabært sé að ræða næstu tillögur.
„Það er ótímabært að tala um það. Þegar ég skilaði tillögum fyrst leit þetta vel út og ég taldi að það væri hægt að fara í vægar tilslakanir. Eins og staðan er núna væri glapræði að fara í miklar tilslakanir.“
Aðspurður segir Þórólfur að það muni taka tíma að ná utan um smit undanfarinna daga. „Þetta tekur alltaf einhvern tíma. Við erum að sjá smit koma fram hjá fólki sem smitaðist síðustu helgi,“ segir Þórólfur sem kveðst vona að fólk fari varlega um jólin.
„Aðgerðirnar hafa verið að virka vel og við náðum faraldrinum vel niður. Nú er hins vegar jólaundirbúningur á fullu og fólk er mikið á ferðinni. Það eru flestir að passa sig en það þarf bara svo lítið til. Ef einn er smitaður er dreifingin farin af stað áður en menn vita.“