„Frumvarpið mun ekki bæta rétt barna heldur auðvelda fullorðnum að smeygja sér í raðir barna til að njóta réttarverndar sem börnum eiga að vera tryggð. Með órökstuddum dylgjum og röngum tilvísunum er reynt að grafa undan þeirri aðferðafræði sem best tryggir börnum rétt sinn og langflest lönd Evrópu fylgja,“ segir í umsögn fjögurra réttartannlækna um frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga.
Um er að ræða frumvarp Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur sem felur í sér að horfið verði frá aldursgreiningum með líkamsrannsókn en í staðinn tekið upp heildstætt mat, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Réttartannlæknarnir segja að réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar séu nákvæmar og þær séu notaðar af öllum Evrópuþjóðum utan tveggja til að tryggja réttindi barna. „Flutningsmaður gerist sekur um alvarlegar rangfærslur í sínum málflutningi sem standast ekki nánari skoðun,“ segir í umsögninni. Undir hana rita réttartannlækarnir Svend Richter, Sigríður Rósa Víðisdóttir, Guðlaugur J. Jóhannsson og Sonja Rut Jónsdóttir en þau kenna öll við tannlæknadeild Háskóla Íslands.