Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur beint því til fjárlaganefndar að í fjáraukalögum verði veittar 5 milljónir til embættis umboðsmanns Alþingis vegna setts umboðsmanns samhliða kjörnum umboðsmanni frá 1. nóvember þessa árs.
Tryggvi Gunnarsson er kjörinn umboðsmaður Alþingis og gildir kjörtímabil hans í fjögur ár frá 1. janúar 2020. Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari var hins vegar settur umboðsmaður samhliða Tryggva í sex mánuði frá 1. nóvember. Er það gert vegna vinnu Tryggva við fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar.
Í innsendu erindi sem barst nefndinni á föstudaginn segir Steingrímur að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum útgjaldalið í fjárlaugafrumvarpi ársins og að málaflokkurinn eigi ekki varasjóð til að sækja í. „Í ljósi mikillar fjölgunar á kvörtunum til umboðsmanns Alþingis, mest tengdum covid-19 heimsfaraldrinum, er ekki hægt að hliðra til í starfseminni til að mæta þessum kostnaði,“ segir í erindi Steingríms.