Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að of fljótt sé að hrósa einhverju happi yfir þeim tölum sem birtust í dag um smit sem greindust í gær. Samtals 10 smit greindust, eftir að þau höfðu verið 20 og 21 síðustu tvo daga. „Ég er ánægður að sjá að þetta er ekki að rjúka upp í loftið,“ segir hann, en bætir við færri sýni hafi verið tekin í gær en daginn þar áður og að þetta geti vel verið eðlilegar sveiflur á milli daga. Áfram séu um 2% af einkennasýnum jákvæð.
„Við skulum túlka tölurnar með varúð og sjá hvernig þetta er í stærra samhengi,“ segir Þórólfur. Hann tekur þó fram að jákvætt sé að átta af tíu smitum hafi greinst hjá fólki í sóttkví.
Á miðvikudaginn rennur út núverandi reglugerð, en Þórólfur skilaði tillögum sínum til heilbrigðisráðherra um miðja viku. Það var hins vegar gert með fyrirvara um endurskoðun ef breytingar yrðu og eftir það fór fjöldi smita að rísa á ný. Þórólfur segist ekki enn hafa skilað endurskoðuðum tillögum til ráðherra, en útilokar ekki að það verði í dag, þó hann eigi síður von á því. Hann sé enn að fara yfir stöðuna með sínu fólki.
Spurður við hverju megi búast og hvort til skoðunar sé að herða fjöldatakmarkanir segir Þórólfur: „Það yrði mjög erfitt að setja strangari fjöldatakmarkanir. Þetta er ansi strangt nú þegar. Það er ekki mikið rúm til að fara í eitthvað þrengra.“ Segir hann stóru spurninguna vera hvort núverandi ástand verði óbreytt áfram eða ekki.
Ítrekaði Þórólfur ummæli sín sem hann hefur oft sagt áður að fara verði hægt í allar tilslakanir. Þá sé þjóðfélagið núna á viðkvæmum stað með að frekari smit blossi upp á ný.
Smit síðustu daga hafa verið tengd við nokkrar hópamyndanir eða fjölskyldusamkomur Spurður hvort smit sem greindust í gær tengist áfram þessum sömu tilvikum segir Þórólfur svo vera. Segir hann að ekki sé mikið um smit að koma inn núna sem ekki takist að greina tengingu við fyrri smit. Smitrakningin líti því vel út eins og er.