Skýr birtingarmynd klíkunnar

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

„Þetta er mjög skýrt dæmi um þessi vinnubrögð. Þarna birtist þetta auðvitað með alveg ótrúlegum hætti og er í raun óbein sönnun um þessi vinnubrögð sem þarna eru við lýði,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrr­ver­andi hæsta­rétt­ar­dóm­ari. Vísar hann í máli sínu til dóms Hæstaréttar er varðar þrotabú EK1923.

Í grein sem Jón Steinar birti í Morgunblaðinu í dag ritar hann að sjálfstæðar skoðanir dómara heyri nú sögunni til innan dómsýslunnar. Þá bendir hann á að þetta eigi sérstaklega við um Hæstarétt, en í stað þess að mynda sér sjálfstæða skoðun er oft og tíðum gerður samningur milli dómara um orðalag og niðurstöðu. Þá sjáist þetta einna best í fækkun sératkvæða dómara. 

Algjör skortur á frumkvæði

Að hans sögn er mál þrotabús EK1923 mjög gott dæmi um skort á frumkvæði í störfum dómara. Þannig fengust þrjár mismunandi niðurstöður í málinu, en á dómstigunum voru viðkomandi dómarar alltaf sammála. „Þetta eru allt fjölskipaðir dómar. Dómararnir eru allir sammála um þrjár mismunandi niðurstöðu. Maður veltir fyrir sér: Hvers vegna er enginn dómari í Hæstarétti sammála einhverjum dómara í Landsrétti til dæmis?“

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umrætt mál endaði að lokum þannig að Skúla Gunnari Sigfússyni, gjarnan kenndum við Subway, tapaði málinu og var gert að greiða á fimmta hundrað milljónir króna. 

Forseti Hæstaréttar vinur skiptastjóra

Benedikt Bogason, núverandi forseti Hæstaréttar, hafði verið skipaður dóm­ari í mál­inu áður en hann tók við sem for­seti réttarins. Bene­dikt tók á end­an­um ekki sæti í mál­inu, en lögmaður Skúla hafði gert athugasemdir við setu hans þar eftir að sést hafði til hans í út­skrift­ar­veislu hjá dætr­um Sveins Andra. Aðspurður segist Jón Steinar ekki vilja svara því hvort forseti Hæstaréttar hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins. „Ég vil ekki vera með neinar getgátur. Það er hins vegar alveg ljóst að þetta er óþægileg tilfinning fyrir þá sem eru með mikið undir.“

Jón Steinar segir að mikil klíka ríki innan dómstiganna. Þá vilji lögfræðingar ekki tjá sig um málið sökum þess að þeir vilji ekki tefla hagsmunum umbjóðenda í hættu. Spurður hvort það sé á brattann að sækja fyrir þá sem eiga í málaferlum við aðila sem vel eru tengdir innan dómsýslunnar segir Jón Steinar það hugsanlegt. „Það er svo sannarlega ástæða til að óttast það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert