Yfirréttur MDE staðfestir dóm í Landsréttarmálinu

Í aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.
Í aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.

Yfirréttur Mannréttindadómstóls Evrópu hefur staðfest fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu. Yfirrétturinn er einróma um að brotið hafi verið gegn sjöttu grein mannréttindasáttmála Evrópu en dómstóllinn hafði áður klofnað í afstöðu sinni til málsins.

Það var í mars á síðasta ári sem fimm dómarar af sjö komust að þeirri niðurstöðu að ís­lenska ríkið hefði gerst brotlegt og að skipun dómara í réttinn hefði brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um. 

Tveir dóm­ar­ar skiluðu þá sér­at­kvæði og töldu ríkið ekki hafa brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um.

Málflutningur fyrir yfirrétti dómstólsins fór svo fram í febrúar á þessu ári. Lögmaður íslenska ríkisins sagði þá meðal annars að „löm­un­ar­ástand“ (e. state of para­lys­is) Lands­rétt­ar gæti ekki haldið áfram.

Það væri sýn rík­is­stjórn­ar­inn­ar að yf­ir­rétt­ur­inn ætti, eft­ir skoðun sína á mál­inu, að kom­ast að þeirri niður­stöðu að löm­un­ar­ástand­inu skyldi aflétta, miðað við staðreynd­ir máls­ins.

Seta dómarans hefði brotið gegn lögum

Dómurinn varðaði mál Guðmund­ar Andra Ástráðsson­ar, sem stefnt hafði verið fyrir Landsrétti. Lögmaður hans, Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son, taldi að seta Arn­fríðar Ein­ars­dótt­ur í Lands­rétti hefði verið brot á lög­um mann­rétt­inda­sátt­mál­ans vegna skip­un­ar dóms­málaráðherra á Arn­fríði og þrem­ur öðrum dóm­ur­um í Lands­rétt, en hæfn­is­nefnd hafði talið aðra hæfari til að gegna embættunum.

Dómstóllinn taldi að brotið hefði verið gegn sjöttu grein sáttmálans, sem fjall­ar um rétt ein­stak­linga til rétt­látr­ar málsmeðferðar fyr­ir dómi. Í fyrri dómi dómstólsins var ekki tekin sérstök afstaða til þess hvort Guðmund­ur Andri hefði hlotið rétt­láta málsmeðferð fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um.

Meirihluti taldi rök ríkisins ekki sannfærandi

Íslenska ríkið hélt því fram í fyrri málflutningi að Hæstirétt­ur Íslands hefði, þrátt fyr­ir að ein­hverj­ir van­kant­ar hefðu verið við skip­un dóm­ara, ekki dregið í efa lög­mæti skip­an dóm­ar­ans í máli Guðmund­ar Andra og þar af leiðandi hefði hann hlotið rétt­láta málsmeðferð hjá dóm­stóli sem skipaður hefði verið sam­kvæmt lög­um.

Meiri­hluti dóm­aranna taldi hins veg­ar rök ís­lenska rík­is­ins ekki sann­fær­andi. Það lægi fyr­ir að van­kant­ar hefðu verið við skip­un dóm­ara við Lands­rétt og á þeim grund­velli væri ekki hægt að telja skip­un dóm­ar­anna vera í sam­ræmi við lög.

Hefði verið svívirðilegt brot

Meðal ann­ars var fjallað um áber­andi brest í meðferð Alþing­is, þar sem ekki var greitt at­kvæði um hvern dóm­ara fyr­ir sig þegar skip­un dóm­ara við Lands­rétt hlaut þing­lega meðferð.

Þá sagði dómstóllinn það liggja fyr­ir að skip­un Arn­fríðar Ein­ars­dótt­ur í embætti dóm­ara við Lands­rétt hefði verið „sví­v­irðilegt brot á gild­andi lög­um [á Íslandi]“ um skip­un dóm­ara.

Dómararnir fjórir sinntu ekki dómstörfum eftir að fyrri dómur Mannréttindadómstólsins lá fyrir og voru aðrir dómarar fengnir til þeirra starfa. Nú er svo komið að þrír af þessum fjórum dómurum hafa hlotið skipun í embætti að nýju. Aðeins einn þeirra, Jón Finnbjörnsson, sinnir ekki störfum við dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert