Bakvörðurinn ætlar í mál við ríkið

Konan fór ásamt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum vestur til Bolungarvíkur í byrjun …
Konan fór ásamt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum vestur til Bolungarvíkur í byrjun apríl til aðstoðar þegar kórónuveirufaraldurinn var hvað skæðastur þar. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Aur­ora Waage, sem sökuð var um að hafa villt á sér heim­ild­ir þar sem hún starfaði sem bakvörður á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Bergi í Bol­ung­ar­vík í byrj­un apríl, ætlar í skaðabótamál við fjölmiðla og íslenska ríkið.

Héraðssaksóknari hefur ákveðið gefa ekki út ákæru í máli Önnu sem var handtekin 10. apríl sökuð um að hafa fram­vísað fölsuðum gögn­um og mis­farið með lyf.

Í yfirlýsingu frá lögmanni hennar, Jóni Bjarna Kristjánssyni, kemur fram að umfjöllun fjölmiðla hafi verið henni óvægin sem og athugasemdir netverja.

Enn fremur segir að hún hafi verið hreinsuð af öllum sakaáburði frá því á vormánuðum og nú taki við að endurheimta mannorð og æru.

„Þá liggur fyrir að mikil vinna er framundan við að sækja bætur og ómerkja rangindi og ærumeiðingar sem fjölmiðlar og netverjar hafa viðhaft um hana. Þá mun hún jafnframt höfða mál á hendur íslenska ríkinu fyrir handtöku hennar sem var algerlega tilefnislaus og fór fram á óþarflega niðurlægjandi og meiðandi hátt,“ segir í yfirlýsingunni.

Einnig er vitnað til bréfs héraðssaksóknara þar sem fram kemur að Anna hafi titlað sig sem sjúkraliðanema og starf hennar samkvæmt ráðningasamningi aðhlynning. Ekkert við rannsókn málsins hafi bent til þess að hún hafi blekkt þá sem réðu hana til starfa eða sagt að hún væri menntuð sem hjúkrunarfræðingur eða með aðra sambærilega menntun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert