Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vonar að nýtt kynningarmyndband með viðtölum við erlenda sérfræðinga sem starfa á Íslandi muni vekja athygli á þeim möguleikum sem Ísland getur boðið slíkum starfsmönnum.
Myndbandið tengist vefsíðunni Work in Iceland sem var sett á laggirnar í fyrra og er ætlað að hvetja erlenda sérfræðinga til að flytja hingað til lands. „Þetta verkefni er mikið tækifæri fyrir landið allt,“ sagði Þórdís Kolbrún á rafrænum fundi sem Samtök iðnaðarins og Íslandsstofa héldu í hádeginu í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Hún sagði einnig mikilvægt að erlendir sérfræðingar hafi kost á að starfa í litlum bæjarfélögum úti á landi og geti verið „með kajak í bakgarðinum og skíði korter frá“. Hún sagði mikil tækifæri felast í því að fólk geti unnið hvaðan sem er.
Ráðherrann bætti því við að einn helsti veikleiki íslenska frumkvöðlaumhverfisins sé tenging okkar við útlönd. Heildarupphæð erlendra fjárfestinga hérlendis í greininni var um 12 milljarðar í fyrra og komu 2/3 hlutar frá Bandaríkjunum og afgangurinn frá Evrópu. „Við þurfum að þroska nýsköpunarumhverfið enn betur,“ sagði hún og bætti við að taka þurfi stór skref og vinna hlutina hratt og örugglega. Ekki sé nóg að manna stöður heldur veita íslenskum fyrirtækjum möguleika á að miðla þekkingu í sínu fagi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði að skapa þurfi þúsundir starfa á næstunni og að SI hafi talað um að skapa þurfi 60 þúsund störf til ársins 2050. Þar skipti nýsköpun í atvinnulífi höfuðmáli.
Sigurður talaði um mikilvægi lagabreytingar á Alþingi í vor um að endurgreiðsluhlutfall og endurgreiðsluþak vegna rannsóknar og þróunar voru hækkuð. Það ásamt auknu fjármagni í tækniþróunarsjóð gefi fyrirheit um bjarta framtíð hérlendis.
„Ef við leggjumst öll á eitt getur sá áratugur sem nú er að hefjast orðið áratugur nýsköpunar,“ sagði hann og minntist á fjórðu stoðina, eða hugverkaiðnað, í því samhengi. Sú stoð geti orðið sú stærsta og mikilvægasta á Íslandi og dregið úr sveiflum í hagkerfinu. Með því að styrkja frekari framgang fjórðu stoðarinnar verði til ný og eftirsótt störf.
Sigurður sagði Ísland ekki eingöngu eiga í samkeppni við aðrar þjóðir um sölu á því sem hér er framleitt heldur einnig um hæfileikaríkt fólk. Þar ríkir hörð samkeppni en hér á landi skiptir sköpum að hér er boðið upp á skattaafslátt í þrjú ár fyrir erlenda sérfræðinga, bætti hann við. Liðka mætti enn frekar fyrir atvinnuleyfi sérfræðinga utan EES.
Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri lyfjafyrirtækisins Alvotech, sagði það vera lykilatriðið í starfsemi fyrirtækisins að fá erlenda sérfræðinga til Íslands. Rúmlega 100 slíkir starfa hjá fyrirtækinu af 45 þjóðernum. Stærsti hópurinn er frá Indlandi, eða fjörutíu manns
Hún sagði að á síðustu 20 árum hafi miklar breytingar orðið á þann veg að mun auðveldara er að fá erlenda sérfræðinga til að flytja til Íslands vegna þess hversu þekkt það er orðið sem ferðamannaland.
Það sem selur til framtíðar varðandi það að laða fólk hingað til lands eru góðar reynslusögur fólks sem hefur búið hér og starfað.