„Mikið tækifæri fyrir landið allt“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, von­ar að nýtt kynn­ing­ar­mynd­band með viðtöl­um við er­lenda sér­fræðinga sem starfa á Íslandi muni vekja at­hygli á þeim mögu­leik­um sem Ísland get­ur boðið slík­um starfs­mönn­um.

Mynd­bandið teng­ist vefsíðunni Work in Ice­land sem var sett á lagg­irn­ar í fyrra og er ætlað að hvetja er­lenda sér­fræðinga til að flytja hingað til lands. „Þetta verk­efni er mikið tæki­færi fyr­ir landið allt,“ sagði Þór­dís Kol­brún á ra­f­ræn­um fundi sem Sam­tök iðnaðar­ins og Íslands­stofa héldu í há­deg­inu í sam­vinnu við at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið.

Við opnun vefjarins Work in Iceland í húsakynnum Alvotech í …
Við opn­un vefjar­ins Work in Ice­land í húsa­kynn­um Al­votech í fyrra. Frá vinstri: Árni Harðar­son, aðstoðarfor­stjóri Al­vo­gen og stjórn­ar­maður Al­votech, Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri SI, og Pét­ur Óskars­son, fram­kvæmda­stjóri Íslands­stofu. Ljós­mynd/​Aðsend

„Með kaj­ak í bak­g­arðinum“

Hún sagði einnig mik­il­vægt að er­lend­ir sér­fræðing­ar hafi kost á að starfa í litl­um bæj­ar­fé­lög­um úti á landi og geti verið „með kaj­ak í bak­g­arðinum og skíði kort­er frá“. Hún sagði mik­il tæki­færi fel­ast í því að fólk geti unnið hvaðan sem er.

Ráðherr­ann bætti því við að einn helsti veik­leiki ís­lenska frum­kvöðlaum­hverf­is­ins sé teng­ing okk­ar við út­lönd. Heild­ar­upp­hæð er­lendra fjár­fest­inga hér­lend­is í grein­inni var um 12 millj­arðar í fyrra og komu 2/​3 hlut­ar frá Banda­ríkj­un­um og af­gang­ur­inn frá Evr­ópu. „Við þurf­um að þroska ný­sköp­un­ar­um­hverfið enn bet­ur,“ sagði hún og bætti við að taka þurfi stór skref og vinna hlut­ina hratt og ör­ugg­lega. Ekki sé nóg að manna stöður held­ur veita ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um mögu­leika á að miðla þekk­ingu í sínu fagi.

Sigurður Hannesson.
Sig­urður Hann­es­son. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Get­ur orðið ára­tug­ur ný­sköp­un­ar

Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðar­ins, sagði að skapa þurfi þúsund­ir starfa á næst­unni og að SI hafi talað um að skapa þurfi 60 þúsund störf til árs­ins 2050. Þar skipti ný­sköp­un í at­vinnu­lífi höfuðmáli.

Sig­urður talaði um mik­il­vægi laga­breyt­ing­ar á Alþingi í vor um að end­ur­greiðslu­hlut­fall og end­ur­greiðsluþak vegna rann­sókn­ar og þró­un­ar voru hækkuð. Það ásamt auknu fjár­magni í tækniþró­un­ar­sjóð gefi fyr­ir­heit um bjarta framtíð hér­lend­is.

„Ef við leggj­umst öll á eitt get­ur sá ára­tug­ur sem nú er að hefjast orðið ára­tug­ur ný­sköp­un­ar,“ sagði hann og minnt­ist á fjórðu stoðina, eða hug­verkaiðnað, í því sam­hengi. Sú stoð geti orðið sú stærsta og mik­il­væg­asta á Íslandi og dregið úr sveifl­um í hag­kerf­inu. Með því að styrkja frek­ari fram­gang fjórðu stoðar­inn­ar verði til ný og eft­ir­sótt störf.

Sig­urður sagði Ísland ekki ein­göngu eiga í sam­keppni við aðrar þjóðir um sölu á því sem hér er fram­leitt held­ur einnig um hæfi­leika­ríkt fólk. Þar rík­ir hörð sam­keppni en hér á landi skipt­ir sköp­um að hér er boðið upp á skatta­afslátt í þrjú ár fyr­ir er­lenda sér­fræðinga, bætti hann við. Liðka mætti enn frek­ar fyr­ir at­vinnu­leyfi sér­fræðinga utan EES.

Hátæknisetur Alvotech á Íslandi.
Há­tækni­set­ur Al­votech á Íslandi. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

40 Ind­verj­ar hjá Al­votech

Tanya Zharov, aðstoðarfor­stjóri lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins Al­votech, sagði það vera lyk­il­atriðið í starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins að fá er­lenda sér­fræðinga til Íslands. Rúm­lega 100 slík­ir starfa hjá fyr­ir­tæk­inu af 45 þjóðern­um. Stærsti hóp­ur­inn er frá Indlandi, eða fjöru­tíu manns

Hún sagði að á síðustu 20 árum hafi mikl­ar breyt­ing­ar orðið á þann veg að mun auðveld­ara er að fá er­lenda sér­fræðinga til að flytja til Íslands vegna þess hversu þekkt það er orðið sem ferðamanna­land.

Það sem sel­ur til framtíðar varðandi það að laða fólk hingað til lands eru góðar reynslu­sög­ur fólks sem hef­ur búið hér og starfað.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert