Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar hugmyndum Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um rannsókn á bótasvikum í almannatryggingakerfinu. Hugmyndina viðraði Brynjar í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar á dögunum. Þar sagði hann einnig að samfélagið stæði ekki undir veldisvexti hvað varðar fjölgun öryrkja.
„Það er ánægjuefni ef ráðist verður í slíka rannsókn, því hún mun leiða Brynjari og samflokksmönnum hans fyrir sjónir, að frelsi einstaklingsins til athafna, hefur hingað til ekki náð til öryrkja,“ segir í tilkynningu frá ÖBÍ.
Þar segir að slík rannsókn muni staðfesta að um helmingur þeirra sem koma nýir inn á örorku, eru konur komnar yfir fimmtugt, slitnar á sál og líkama. Þá muni rannsóknin leiða í ljós að hlutfall öryrkja sem stundar svarta atvinnu, sé svipað, eða aðeins lægra, en hlutfall annara íslendinga sem vinna svart.
„Rannsóknarnefnd Brynjars getur kíkt í skýrslu sem geymd er í skrifborðsskúffu fjármálaráðherra, sem sýnir að samfélag okkar verði af 87 til ríflega 200 milljörðum á ári vegna skattsvika. Rannsókn Brynjars mun staðfesta að öryrkjar eru þar ekki ráðandi afl.“
Þá segir í tilkynningunni að öryrkjum sé ekki að fjölga í veldisvexti.
„Ef öryrkjum fjölgaði í veldisvexti væri öll þjóðin orðin öryrkjar innan skamms tíma, Brynjar þar meðtalinn. Staðreyndin, sem rannsókn Brynjars mun staðfesta, er að hægt hefur á fjölgun á örorku, og reyndar hefur fækkað í hópi öryrkja síðustu ár.“
Í tilkynningunni sakar ÖBÍ Brynjar um að tala fyrir eftirlitsþjóðfélagi.
„Brynjar vill rannsaka fleira. Hann telur ótækt að hver skattgreiðandi þurfi að halda uppi einum öryrkja og einum öldruðum. Honum til hughreystingar mun rannsókn hans leiða í ljós að fjöldi öryrkja hefur staðið í stað undanfarin ár, og að á komandi árum munu lífeyrissjóðir okkar standa undir æ stærri hlut eftirlauna landsmanna. Hlutur ríkisins í eftirlaunum getur því ekki annað en minnkað.
Það þarf samt enga rannsókn til að sjá hve miklir fordómar og andúð eru enn ríkjandi í samfélagi okkar í garð fatlaðs fólks, og ótrúleg tilviljun að það skuli staðfestast með þessum hætti á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks,“ segir loks í tilkynningunni.