Ólafur Helgi með réttarstöðu sakbornings

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur fengið réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á embættisfærslu hans þar suður með sjó. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lýtur rannsóknin að gagnaleka, en auk Ólafs Helga hafa tveir aðrir starfsmenn embættisins hlotið sömu réttarstöðu.

Gagnalekinn mun snúa að að birtingu bréfs, sem Ólafur sendi dómsmálaráðuneytinu í sumar, en var jafnframt lekið til Fréttablaðsins. Í bréfinu, sem var sent áður en Ólafur náði samkomulagi við ráðuneytið um framtíð sína, fór hann meðal annars fram á rannsókn á veikindaleyfi tveggja yfirmannanna við embættið, en honum þóttu samtíma veikindi beggja ósennileg í ljósi illdeilna þeirra við sig.

Óstaðfestar heimildir bera að fleiri sakargiftir hafi verið tilkynntar til saksóknara, en óvíst er hvort annað sé rannsóknar en hinn meinti gagnaleki. Nefnt var að athygli hefði verið vakin á greiðslu á verktakareikningi fyrir almannatengsl, sem Ólafur Helgi óskaði eftir, en áhöld hefðu verið um heimildina til þess. Fjármálastjóri embættisins neitaði að greiða reikninginn, en uppskar áminningu lögreglustjórans þáverandi fyrir og var reikningurinn greiddur. Settur lögreglustjóri í stað Ólafs Helga endurkallaði áminninguna skömmu síðar.

Heiftarlegar deilur voru innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum um störf Ólafs Helga, sem meðal annars rötuðu í fjölmiðla í sumar leið. Lauk þeim með íhlutun dómsmálaráðherra, sem flutti hann í starf sérfræðings í málefnum landamæragæslu hjá dómsmálaráðuneytinu. Hann hefur að undanförnu sinnt störfum fyrir Frontex landamærastofnunarinnar, sem annast samvinnu Schengen ríkjanna á sviði landamæragæslu, og hefur haft skrifstofuaðstöðu hjá sýslumannsembættinu á Suðurnesjum.

Þær Súsanna Fróðadóttir saksóknari og Hulda Oddsdóttir skjalastjóri hjá embættinu á Suðurnesjum hafa einnig fengið réttarstöðu sakborninga í rannsókninni.. Þær voru sendar í leyfi frá störfum í síðustu viku og var samstarfsfólki tilkynnt um það. Ólafur Helgi mun sömuleiðis hafa verið sendur í leyfi, líkt og reglan er ef fólk fær stöðu sakbornings við sakamálarannsókn.

Rétt er að ítreka að í stöðu sakbornings felst ekkert um ætlaða sök, heldur er hún veitt fólki til ýtrustu réttarverndar á rannsóknarstigi ef svo kynni að fara að það yrði ákært. 

Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara staðfestir að málið sé til meðferðar hjá embættinu, en vill að öðru leyti ekki tjá sig efni kærunnar, hvaða atriði hennar séu til rannsóknar eða framvindu hennar.

Ólafur Helgi Kjartansson sagði í samtali við mbl.is að hann teldi ekki við hæfi að hann tjáði sig um málið meðan það væri til meðferðar saksóknara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert