Segir heitavatnsskortinn tengdan faraldrinum

Vaxandi heitavatnsnotkun gæti skýrt út skort á heitu vatni.
Vaxandi heitavatnsnotkun gæti skýrt út skort á heitu vatni.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, segir heitavatnsskort vegna kuldakasts sem er nú yfirvofandi nátengdan aukinni heitavatnsnotkun fólks á tímum faraldursins. Máli sínu til stuðnings vísar hann til rannsóknar á 350 kínverskum heimilum í fyrstu bylgju faraldursins þar í landi.

„Það virðast vera einhver sterk tengsl við Covid og breytta hegðun fólks,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Ímyndum okkur að við séum komin fram í tímann og heimavinnan er algeng - þá er komin ný breyta inn,“ segir hann.

Sýni rannsóknin 60% aukningu á orkunotkun heimila vegna hitunar og kælingar og 40% aukningu vegna lýsingar. Tekur Gestur einnig fram að lítil von hafi verið á viðlíka kuldakasti og því sem væntanlegt er næstu daga.

„Þar sem orkugjafar og byggingar eru ekki sambærilegar við Kína að þá gefur þetta engu að síður að vísbendingar fyrir okkur hér á Íslandi að þessi mikla 11% aukning í eftirspurn á heitu vatni sé tengd áhrifum vegna Covid,“ segir hann í skriflegu svari til mbl.is.

„Þó svo að rannsóknin sé ekki fullkomin m.t.t. aðstæðna á Íslandi að þá gefur hún engu að síður vísbendingar um að Covid sé að hafa áhrif á orkunotkun heimila,“ skrifar Gestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka