Varnir í meiðyrðamálum snúa að því að ummæli rúmist innan marka tjáningarfrelsis og þeim sem er stefnt í slíkum málum þurfa að sanna að ummælin séu sönn eða hafi verið sögð í góðri trú. Þetta kom fram í máli Gunnars Inga Jóhannssonar, lögmanns Aldísar Schram, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem tekist var á um vitni sem hún vill kalla til í meiðyrðamáli föður hennar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, gegn henni og Sigmari Guðmundssyni.
Um er að ræða fjórar konur sem Aldís vill kalla til en þær segjast hafa verið áreittar af hendi Jóns Baldvins eða heyrt um meint brot hans.
Sumarið 2019 stefndi Jón Baldvin dóttur sinni Aldísi Schram vegna ummæla hennar í Morgunútvarpinu 17. janúar sama ár. Jón Baldvin gerir ekki fjárkröfur á hendur Aldísi heldur krefst þess að ummælin, níu úr Morgunútvarpinu og ein af Facebook, verði dæmd dauð og ómerk.
Sigmari er stefnt fyrir fern ummæli úr þættinum 17. janúar, en hann sagði í samtali við mbl.is á síðasta ári að ummælin væru endursögn á ummælum Aldísar í viðtalinu og ummæli sem hún hafði birt opinberlega á Facebook og aðrir miðlar höfðu vitnað til.
Gunnar Ingi benti einnig á gildisdóma en þá hafi sá sem stefnt er dregið ályktanir af upplýsingum sem hann eða hún hafði. Þá þurfi að leiða fram vitni til að sjá á hverju ummælin eru byggð.
„Það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um þau tugi kynferðisbrota sem stefnandi er sakaður um,“ sagði Gunnar Ingi og benti á að á þriðja tug kvenna opnuðu vefsíðu í febrúar 2019 þar sem þær lýpsa kynferðisbrotum og áreiti af hendi Jóns Baldvins.
Lögmaðurinn sagði að upphafspunktur meiðyrðamálsins væri í janúar í fyrra þegar þrjár konur stigu fram undir nafni og lýstu slíkri háttsemi af hendi hans. Tvær þessara kvenna vill Aldís leiða fram sem vitni í málinu.
Hann sagði mikilvægt að varpa frekara ljósi á máli í heild sinni. Þó þetta meiðyrðamál megi rekja til janúarmánaðar í fyrra hafi allt málið tengt Jóni Baldvini hafist áratugum fyrr.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins, vill ekki að konurnar fjórar komi fyrir dóm og beri vitni í málinu.
Hann sagði þær ekki geta vitnað um með einum eða öðrum hætti um atvik þessa máls; sem snúi eingöngu að ummælum Aldísar í útvarpinu.
Hann hafnar því enn fremur að málið snúist um áðurnefnda vefsíðu gegn Jóni Baldvini eða MeToo-byltinguna.
Lögmaðurinn sagði eitt vitnanna, sem tekist er á um hvort komi fyrir dóm, vísa í „almannaróm“ máli sínu til stuðnings. Vilhjálmur sagði almannaróm ekkert annað en slúður og það gangi ekki að bera vitni um „meintan almannaróm“.
Dómari úrskurðar fyrir jól hvort konurnar verði kölluð til sem vitni en aðalmeðferð í málinu hefst 13. janúar.