Faraldurinn á mjög hægri niðurleið

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að miðað við smittölur síðustu daga sé faraldurinn hér á landi á mjög hægri niðurleið, en á niðurleið þó. Sífellt færri greinast utan sóttkvíar, sem er jákvætt.

„Það má samt lítið út af bregða,“ segir hann í samtali við mbl.is

„Þess vegna viljum við hvetja fólk til að fara extra varlega núna fyrir jólin. Það væri leiðinlegt að þurfa að vera í sóttkví eða einangrun yfir jólin.“

Fólk hugsi inn á við

Spurður um atvik sem kom upp í verslun Rúmfatalagersins í gær þegar konu, sem neitaði að vera með grímu, var vísað á dyr, segist Rögnvaldur ekki kannast við málið.

„Ég kannast ekki við þetta, nei. Ég tel bara að þeir sem eru ósammála þessum fyrirmælum sem hefur verið beint til almennings eins og hvað varðar grímunotkun og annað, megi ekki setja annað fólk í hættu. Það er ekki að fara þér neitt slæmt að vera með andlitsgrímu eitt augnablik.“

„Ég tel að best sé að hugsa um hvað við viljum geta horft á, þegar við lítum til baka á þennan tíma sem við erum að upplifa núna: Var ég að gera eitthvað sem kom mér og nærsamfélaginu mínu vel, eða var ég að gera sjálfum mér og öðrum einhvern grikk? Var ég að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að bæta ástandið? Þetta finnst mér alla vega gott að hugsa með sjálfum mér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert