Nú er kuldakast á landinu og ef fram fer sem horfir mun meðalhiti ársins 2020 verða nokkru lægri en hann hefur verið nokkur undanfarin ár.
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu ellefu mánuði ársins 2020 var 5,4 stig sem er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofu Íslands. Meðalhitinn raðast í 40. sæti á lista 150 ára mælinga. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna ellefu 4,8 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 22. til 24. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur verið 13% umfram meðallag í Reykjavík, en 26% umfram meðallag á Akureyri.
Tíð var nokkuð hagstæð í nýliðnum nóvember og samgöngur greiðar, segir í yfirliti Veðurstofunnar. Að tiltölu var hlýjast austanlands en að tiltölu kaldast sunnan- og vestanlands. Mjög kalt var á landinu dagana 18. til 19. Óveðrasamt var á landinu dagana 4. og 5. og aftur dagana 26. og 27, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.