Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrum dómsmálaráðherra, segist ætla að halda áfram í stjórnmálaum og hlakkar til að taka þátt í prófkjöri Sjáfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar. Sigríður var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni nú síðdegis.
Hún segir að hún hafdi aldrei viljað gera Landsréttarmálið persónulegt um sig. Það fólk sem hún hafi fundað með daginn sem hún sagði af sér embætti dómsmálaráðherra hafi verið hauslaust og látið hlaupa með sig í gönur. Réttara hefði verið að leyfa rykinu að setjast.
Spurð hvort hún ætli að halda áfram í pólitík sagði Sigríður að stjórnmálamenn séu heppnir með að störf þeirra séu lögð í dóm kjósenda á fjögurra ára fresti. Í hennar flokki, Sjálfstæðisflokki, er venjan að fari fram prófkjör. Um það sagði hún:
„Í þeim efnum óttast ég þó eigi og hlakka til að fá einmitt stuðning minna flokksmanna.“
Í kjölfarið var hún spurð hvort hún ætli að bjóða sig fram að nýju til Alþingis.
„Já, já. Ég hef fullan hug á því – tel þörf á því að það sé stjórnmálamaður með mína reynslu og mitt viðhorf í stjórnmálaum. Þá tel ég að það eigi mikið erindi við flokksmenn mína.“
„Það á enginn inni einhverja stóla og annað,“ segir Sigríður, við spurningu Heimis um hvort hún eigi það inni hjá samflokksmönnum í ríkisstjórn að fá að setjast aftur á stól dómsmálaráðherra, og bætir við að hún hafi aldrei gert kröfu um ráðherrastól.
Spurð að því hvort núverandi ríkisstjórnarssamstarf hafi verið undir, áður en hún sagði af sér embætti dómsmálaráðherra segir Sigríður að einstaka fólk í kringum hana hafi ekki náð að halda ró sinni.
„Ég hefði náttúrulega ekki sagt af mér nema af því að fann að menn ætluðu að gera þetta [...] eitthvað persónulegt. Þetta var mál af fyrra kjörtímabili, þetta var mál sem allir vissu að væri í gangi og ég er ennþá auðvitað þeirrar skoðunar að störf mín hafi ekki kallað á það í þessu máli.“
„Ég get nú bara sagt það alveg heiðarlega að þeir fundir sem ég átti með tilteknu fólki þennan dag komu mér á óvart að því leyti að mér fundust allir sem ég talaði við bara hálfhauslausir.“
Sigríður segir að að það fólk sem hún ræddi við daginn sem hún sagði af sér embætti dómsmálaráðherra hafi látið niðurstöðu MDE hlaupa með sig í gönur. Hún sagðist ekki hafa ætlað að leyfa þessu máli að snúast um hana persónulega.
Hún segir að réttast hefði verið að leyfa rykinu að setjast, persónulega hafði hún misst móður sína örfáum klukkustundum áður en hún tilkynnti um afsögn sína. Hún segir að oft þurfi að leyfa rykinu að setjast í svona málum – fá smá greiningu.