Ríkissjóður og sveitarfélög hafa orðið af tæplega 3,6 milljörðum króna í skatttekjur vegna frádráttarbærra gjafa lögaðila síðustu fimm ár.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns.
Samkvæmt lögum um tekjuskatt geta lögaðilar dregið framlög til ákveðinna félaga til almannaheilla frá tekjum þegar kemur að álagningu tekjuskatts.
Spurt var um upphæð frádráttar frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi tengdri slíkum rekstri vegna framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa frá tekjuskattsstofni við álagningu síðustu fimm árin.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að árið 2018 hafi lögaðilar talið rúmar 74 milljónir fram til frádráttar frá tekjuskattsstofni vegna framlaga til stjórnmálaflokka. Önnur frádráttarbær framlög lögaðila árið 2018 voru 3,7 milljarðar.
Einnig var spurt um áætlað tekjutap ríkissjóðs og sveitarfélaga vegna þessarar frádráttaheimildar.
Mat ráðuneytisins er að árið 2018 hafi tap ríkis og sveitarfélaga vegna þessa verið 776 milljónir og alls 3,6 milljarðar árin 2014-2018.