„Við getum ekki sett lýðræðið til hliðar“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

„Það hlýtur að vera okkar hagsmunamál að fjölmiðlar geti staðið undir sínum skyldum og veitt okkur nauðsynlegt aðhald sem þörf er á í lýðræðislegu samfélagi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forstætisráðherra, í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um á Alþingi í dag. Vísaði hún þar til fjölmiðlafrumvarpsins. 

Áður hafði Katrín verið spurð af Guðmundi Inga Kristinssyni, þingmanni Flokks fólksins, hvort eðlilegt væri að veita fjölmiðlum ríkisstyrk. Nefndi hann í því samhengi fjárhagsörðugleika fjölda einstaklinga í kjölfar faraldurs kórónuveiru. Hafði þingmaðurinn sagt að honum þætti ekki rétta leiðin „að dæla peningum í fyrirtæki út í bæ“. 

Fjórða valdið þarf að vera virkt

Að mati Guðmundar eiga umræddir fjármunirnir fremur að nýtast þeim sem eiga um sárt að binda. Svaraði Katrín fyrirspurninni á þann veg að hagsmunir fólks haldist í hendur við lýðræði. 

„Það þarf að styðja við fjölmiðla svo lýðræðisleg umræða sé tryggð. Hagsmunir fólks og lýðræðis eru ekki andstæða. Þeir fara saman,“ sagði Katrín.

Bætti hún við að tillögur um styrki til fjölmiðla væru ekki úr lausu lofti gripnar. „Þetta er að mörgu leyti sambærilegt við það sem Norðurlöndin hafa gert. Við getum ekki sett lýðræði til hliðar og geymt það. Fjórða valdið þarf að vera virkt og standa undir sínu hlutverki.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert