Elísabet Guðmundsdóttir lýtaskurðlæknir undirbýr nú, ásamt lögfræðingum sínum, málsókn á hendur embætti ríkislögreglustjóra vegna ummæla Rögnvalds Ólafssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá almannavörnum um að hún sé ekki með lækningaleyfi.
Þá undirbýr hún einnig málsókn á hendur fólki sem hefur hótað henni skaða í athugasemdakerfum fjölmiðlanna og víðar. Elísabet segir það miður að fólk geti ekki haft skoðanaskipti án þess að ráðist sé í persónulegar árásir.
Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum fór Elísabet hvorki í sóttkví né sýnatöku við komuna til landsins á föstudag eins og sóttvarnareglur gera ráð fyrir. Hún hefur verið gagnrýnd víða fyrir það en segir sjálf að hún hafi einnig fundið fyrir stuðningi vegna gagnrýni sinnar á sóttvarnaaðgerðir yfirvalda.
„Ég ætla að fara í mál við ríkið, í mál við ríkislögreglustjóra vegna þess að hann hefur sagt hluti um mig sem hann á ekkert með að segja. Það er búið að taka af mér lífsviðurværi mitt og barnanna minna. Það er búið að eyðileggja mannorð mitt. Að auki ætla ég í mál við alla þá sem segjast ætla að skaða mig. Mér hafa borist alls konar hótanir,“ segir Elísabet í samtali við mbl.is.
Elísabetu var sagt upp störfum á Landspítala nýverið þar sem hún starfaði hjá brjóstamiðstöð spítalans. Spurð hvort uppsögnin hafi að einhverju leyti tengst því sem hún hefur sagt um að D-vítamín- og joðskortur geti orsakað brjóstakrabbamein segir Elísabet það af og frá.
Hún hafi þó lesið fjölda rannsókna um slíkt og rætt það við lækna sem höfðu lítinn áhuga á málinu. Slíkt hafi hún ekki rætt um við sjúklinga. Þá nefnir hún að sér þyki alls ekki nægilega vel staðið að meðferðum fyrir konur sem greinast með brjóstakrabbamein.
„Það er langt fyrir neðan allar hellur hvernig staðið er að heilbrigðisþjónustu fyrir konur í þessu landi,“ segir Elísabet.
Hún segist enga ástæðu hafa fengið gefna upp um uppsögn sína en telur að líklega liggi tvær ástæður þar að baki. Annars vegar sú að hún hafði stuttu áður rætt um það hvernig fólk gæti styrkt ónæmiskerfi sitt til að berjast við veiruna í útvarpsviðtali. Þar lýsti hún einnig yfir áhyggjum sínum af því að framhaldsskólanemar kæmust ekki í skólann vegna takmarkana yfirvalda. Hin ástæðan telur Elísabet að sé að hún hafi sagt frá einelti og ofbeldi sem hún sá kollega sinn verða fyrir. Sex dögum eftir að hún ræddi það við starfsmannastjóra og yfirmann sinn fékk hún uppsagnarbréf.
„Núna er sagt að ég sé geðveik og sé ekki með leyfi,“ segir Elísabet. Hún finnst ekki lengur í læknaskrá Landlæknis og segist hún ekki vita hvers vegna það sé. Hún fundaði með landlækni um málið í dag.
Spurð um atvikið á föstudag segir Elísabet að hún hafi ekki neitað að fara í 14 daga sóttkví til að byrja með en vissulega ekki viljað fara í sýnatöku. Sér hafi þó misboðið þegar sú ákvörðun hennar var dregin í efa og tekið ákvörðun um að gera hvorugt.
„Ástæðan fyrir því að ég gerði þetta á föstudaginn var að ég vildi vekja athygli á því að það er ekki ólöglegt að fara ekki í sóttkví. Það eru engin lög sem segja það, þetta eru reglur,“ segir Elísabet.
Nú eru engar aðrar reglur í gildi sem vernda gamla og veika, verðum við þá ekki bara að fylgja þeim reglum sem eru í gildi?
„Við eigum ekki að setja ungt og frískt fólk í einangrun til þess að vernda gamla og veika, heldur að vernda almennilega gamla og veika og hafa þá í almennilegu húsnæði,“ segir Elísabet þá og vísar til hópsmitsins sem kom upp á Landakoti.
Lögreglan hefur ekki haft samband við hana vegna atviksins á föstudag en lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði í samtali við mbl.is í gær að mál konu sem vildi hvorki fara í sýnatöku né sóttkví við komuna til landsins fyrir helgi væri til skoðunar hjá embættinu.
Elísabet er reið yfir þeim ummælum sem hafa verið látin falla um hana en m.a. hefur henni verið hótað ofbeldi.
„Í málfrelsi felst ekki níð. Í því felst að maður fái að spyrja spurninga. Við megum vera með mismunandi skoðanir en við megum ekki vera með persónulegar árásir á fólk opinberlega. Það er það sem stoppar fagfólk frá því að segja það sem það veit,“ segir Elísabet að lokum.