Litakóðunarkerfið hlægilegt

Kári segist munu anda léttar þegar 40% þjóðarinnar hafa verið …
Kári segist munu anda léttar þegar 40% þjóðarinnar hafa verið bólusett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur ekki skynsamlegt að opna sundlaugar og hafa líkamsræktir lokaðar í senn. Tilslakanir geti haft þau áhrif að röng skilaboð verði send út í samfélagið, sem geti valdið annarri bylgju með tilheyrandi takmörkunum.

„Þegar menn eru að hemja hegðun fólks á grundvelli sóttvarnaráðstafana þá verða þeir að geta rökstutt það á einhvern hátt. Þetta verður að líta út eins og menn meini það sem þeir segja. Og þeir verða helst að geta stutt þessar ákvarðanir sínar einhverjum gögnum. En það eru engin gögn sem sýna fram á það að það sé líklegra að menn smitist í líkamsræktarstöðvum heldur en í sundlaugum,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að sóttvarnayfirvöld, ríkisstjórnin og þjóðin öll hafi staðið sig vel í baráttunni við faraldurinn. Þó hefur hann ýmislegt við aðgerðir stjórnvalda að athuga, svo sem misræmi í aðgerðunum og litakóðunarkerfið sem nýlega var kynnt til leiks.

Eitt leyft og annað bannað

„Svo er hitt að það er ákveðið að menn megi ekki opna þessa staði þar sem menn stunda glímu þar sem um er að ræða snertingaríþrótt – þú þarft ekki að horfa á marga handboltaleiki til þess að sjá að á línunni í handbolta er meiri snerting en nokkurs staðar annars staðar,“ segir Kári.

„Þetta verður að hljóma skynsamlega og eins og menn meini það sem þeir eru að segja og mér finnst það vanta svolítið á í þessari fínu útfærslu af þessum sóttvarnareglum. Ég sé ekki með hvaða rökum eitt er leyft og annað bannað. Ég hefði kosið að þetta yrði hvort tveggja bannað því mér finnst eins og við séum að taka töluverða áhættu með þessu. Mér finnst mjög líklegt að við fáum yfir okkur aðra bylgju,“ segir hann.

Að hefja tilslakanir nú sé líkt og að taka lán með háum vöxtum. „Ég hugsa að við komum til með að borga fyrir þetta með dýrum dómum þegar kemur að lokum mánaðarins og byrjun næsta,“ segir Kári.

Það sé ekki endilega vegna efnislegra breytinga takmarkana heldur skilaboða sem í þeim kunni að felast, um að betur gangi nú en áður að ráða niðurlögum faraldursins. 

„Og þegar fólk sér þessi skilaboð aukast líkurnar á því að fólk brjóti þær reglur sem búið er að setja. Og þetta er þannig árstími að þú þarft að hjálpa fólki meira við að aga sig í þessu en á nokkrum öðrum tíma,“ segir hann og bætir við að mannmergðin í Kringlunni og Smáralindinni um þessar mundir sé áhyggjuefni.

Litakóðunarkerfið heldur spaugilegt

„Að því sögðu finnst mér á heildina litið þetta hafa gengið vel,“ segir hann. 

Stjórnvöld kynntu á föstudag til leiks litakóðunarkerfi sem er ætlað að auka fyrirsjáanleika til lengri tíma varðandi þær aðgerðir sem grípa þarf til í baráttunni við faraldurinn. 

Hvað finnst þér um litakóðunarkerfið? Myndir þú segja að við séum á rauðu hættustigi nú?

„Mér finnst það bara hlægilegt,“ segir Kári og hlær.

„Þetta er allt í lagi en mér finnst þetta heldur spaugilegt. Ég hef bara engan áhuga á að nota þetta kerfi, það segir mér ekkert. Við erum á erfiðum stað og mér finnst að við eigum að haga okkur í samræmi við það,“ segir hann og bætir við að nú séum við farin að nálgast þann tíma að bóluefnið verði til staðar.

Kári bendir á að kerfið sé ekki sambærilegt litakóðunarkerfi á vef Veðurstofunnar, sem segir til um veðrið en ekki hvernig menn eigi að hegða sér. Erfiðara væri að minna sífellt á hvaða hegðun menn ættu að viðhafa. 

Hægt að anda léttar þegar 40% eru bólusett 

Hvað þyrfti að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar til þess að hægt sé að fara í tilslakanir að þínu mati?

„Þegar við erum búin að bólusetja 40% af þjóðinni þá myndi ég fara að anda léttar. Það er að segja: þá ertu ekki alveg kominn upp í þau 60% sem þarf til þess að ná hjarðónæmi, en þú ert ansi nálægt því. 

Maður sér það á gögnunum frá klínískum rannsóknum af þessu Pfizer-bóluefni, tíu dögum eftir að búið er að bólusetja þá lasnast menn bara ekki. Eftir að þú ert bólusettur einu sinni þá ertu bókstaflega fyllilega varinn gagnvart þessum sjúkdómi eða næstum því fyllilega varinn sem er andskoti gott.

Ég held að það sé miklu meiri ástæða til að fara mjög varlega núna og vera aðeins frjálslyndari með þessar aðgerðir þegar verður byrjað að bólusetja af fullum krafti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka