Heilbrigðisráðherra segir enn óljóst hvort mögulegt verði að leggja niður allar takmarkanir þegar 75% Íslendinga hafa verið bólusettir, eins og stefnt er að. Bóluefni er væntanlegt í byrjun árs en hraðinn á bólusetningunni ræðst af því hversu hratt efnin koma til landsins.
Samningur við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á 85.000 skömmtum af bóluefni við Covid-19 verður undirritaður á morgun.
„Við vitum að hraðinn á bólusetningum ræðst fyrst og fremst eða nánast eingöngu af því hversu hratt efnin koma til landsins. Við búumst við þeim í byrjun árs en við vitum ekki hversu hratt og í hversu stórum skömmtum,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.
„Miðað við þá skipulagningu sem er nú þegar hafin búumst við við því að við getum bólusett eins hratt og efnin koma til landsins.“
Megum við þá búast við því að það sé hægt verði að slaka á öllum takmörkunum á landamærum og innanlands þegar markmiðum um bólusetningu 75% þjóðarinnar er náð?
„Það get ég ekki sagt til um núna. Við eigum í raun og veru eftir að sjá hvernig bólusetningar og sóttvarnaaðgerðir kallast á,“ segir Svandís.
Eins og áður hefur komið fram vonast heilbrigðisráðuneytið til þess að 75% þjóðarinnar verði bólusett á fyrsta ársfjórðungi.
Þrátt fyrir að lítið sem ekkert sé um smit kórónuveiru utan höfuðborgarsvæðisins sjá heilbrigðisyfirvöld ekki forsendur til að slaka meira á aðgerðum utan höfuðborgarsvæðisins, að sögn Svandísar. Þá er ekki útlit fyrir að meiri áhersla verði lögð á að bólusetja höfuðborgarbúa en aðra.
„Forgangsröðunin kemur fram í reglugerðinni og er ekki háð búsetu,“ segir Svandís.
Væntanlega mun taka aðeins lengri tíma að koma þessu í dreifðari byggðir?
„Við erum að undirbúa örugga og hraða dreifingu á efnunum,“ segir Svandís.