Samþykkt að draga úr notkun pálmaolíu

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Það var sannarlega mögnuð tilfinning þegar þingmál mitt um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu var á Alþingi áðan,“ skrifar Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook.

Tillagan felur í sér að  ferða­mála-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra er falið að vinna áætlun um tak­mörkun á notkun olí­unnar í allri fram­leiðslu á Íslandi og leggja fram frum­varp um bann við notkun hennar í líf­dísil eigi síðar en í lok næsta árs.

Til að fram­leiða pálma­olíu eru regn­skógar ruddir sem hefur slæm áhrif á umhverfið og veldur marg­vís­legum skaða sem brýnt er að girða fyrir með banni á notk­un. Vegna þeirra áhrifa sem fram­leiðsla pálma­olíu hefur haft á umhverfið hefur Evr­ópu­sam­bandið m.a. sam­þykkt reglu­gerð sem miðar að því að draga úr notkun óend­ur­nýj­an­legs líf­efna­eld­is­neyt­is, þar á meðal pálma­ol­íu.

„Þetta er mál sem snýst um loftslagsvernd, dýravernd og vernd þeirra sem minna mega sín. Einnig snýst þetta um tækifæri til aukinnar nýsköpunar í landbúnaði og aukin tækifæri Íslendinga til að vera sjálfstæðari í eigin orkuframleiðslu,“ skrifar Albertína og heldur áfram:

„Með samþykkt þessa máls sjáum við vonandi fyrsta skrefið í átt að því að Ísland leggi sitt að mörkum til að minnka notkun pálmaolíu í heiminum og verðum með því meðal fremstu þjóða. Að öðrum ólöstuðum verð ég að þakka Rannveigu Magnúsdóttur og Auði Önnu Magnúsdóttur fyrir aðstoðina og sömuleiðis atvinnuveganefndinni fyrir stuðning þeirra við málið og afgreiðslu þess.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka