„Þess vegna erum við á rauðu“

Þórólfur Guðnason segir að vissulega mætti skoða litakóðunarkefið betur.
Þórólfur Guðnason segir að vissulega mætti skoða litakóðunarkefið betur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanfarið hefur fólk greinst smitað af kórónuveirunni sem ekki er hægt að rekja til annarra smita. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis segir það okkur að smit séu enn úti í samfélaginu. Lítið þurfi til svo faraldurinn blossi upp að nýju.

Samkvæmt litakóðunarkerfi almannavarna vegna Covid-19 er landið allt nú í rauðu ástandi, þ.e. hæsta hættustigi. Samkvæmt skilgreiningu á rauðu ástandi er það alvarlegt ástand þar sem mikil hætta er á smitum og heilbrigðiskerfið við þolmörk. 

Átta innanlandssmit hafa greinst á landsvísu tvo daga í röð og hafa smitin síðastliðna viku verið á milli fjögur og átján talsins. Spurður hvers vegna nú sé rautt ástand þegar heilbrigðiskerfið sé ekki komið að þolmörkum og tiltölulega lítið sé um smit segir Þórólfur: 

„Vegna þess að litakóðunarkerfið á fyrst og fremst við þær aðgerðir sem eru í gangi, ekki það hversu mörg smit eru í gangi í samfélaginu. Við erum núna að komast út úr þessum faraldri og þess vegna er enn áhætta á því að hann geti brotist út aftur. Þess vegna eru aðgerðirnar á rauðu á meðan við teljum að áhætta sé á því að þetta geti brotist út aftur,“ segir Þórólfur.

„Það eru alls konar atriði sem koma inn í matið hjá okkur varðandi litinn, ekki bara fjöldi smita eða hve margir greinast utan sóttkvíar. Það eru miklu fleiri atriði, hvernig faraldurinn hefur verið, hvort við séum á niðurleið, hve margir eru að greinast á landamærunum, hvernig staðan er á spítalanum og svo fram vegis og staðan er þessi.“

Erum bara rétt að komast út úr bylgjunni

Er mikil hætta á smitum í samfélaginu?

„Það er smit í samfélaginu. Við erum bara rétt að komast út úr þeirri bylgju sem er í gangi. Það er áhætta á því að ef við slökum á að hann geti blossað upp aftur. Þess vegna erum við að fara varlega og þess vegna erum við á rauðu,“ segir Þórólfur. 

Þjónar litakóðunarkerfið einhverju hlutverki þegar það er reglugerðin sem gildir?

„Þetta breytir ekki lögunum sem gilda um sóttvarnaráðstafanir. Þetta er spurning um fyrirsjáanleika og að fólk sjái aðeins fyrir sér við hverju það má búast þegar farið er á milli lita. Þetta hefur ekki lagalegt gildi heldur er þetta til stuðnings, rétt eins og litakóðarnir hjá Veðurstofunni, það er ekki lagalega bindandi hvort fólki fari út eða ekki í vondu veðri, þetta eru ákveðin tilmæli.“

Til hvers er landinu skipt upp? 

Aðspurður segir Þórólfur að staðan geti orðið betri en hún er í dag, þegar smit hætta að greinast í eins miklum mæli og nú í samfélaginu. Þá sé hægt að skipta um litakóða. Kerfið sé þó að sjálfsögðu ekki fullkomið og ýmsar athugasemdir hafi borist við það sem taka þarf tillit til. 

Í litakóðunarkerfinu er landinu skipt upp í nokkra hluta. Þrátt fyrir að lítið sem ekkert sé um smit á landsbyggðinni er þar rautt ástand eins og á höfuðborgarsvæðinu. 

Til hvers er landinu skipt upp í þessu kerfi ef það er rauður litur í öllum landshlutum þegar lítið er um smit annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu?

„Við erum að komast út úr bylgjunni og það gildir ekki bara um höfuðborgarsvæðið. Þetta er ekki mælikvarði á það hversu mörg smit eru í dag. Litakóðaskiptingin tekur tillit til miklu fleiri atriða og eins og hefur komið fram áður þá eru menn smeykir ef við verðum með mismunandi liti og mismunandi takmarkanir á mismunandi stöðum, að fólk fari þá að flakka meira á milli. Hins vegar yrði staðan allt öðru vísi ef við værum með mjög mörg smit í Reykjavík akkúrat núna, við værum með einhvern hápunkt af smitum þar en ekki annars staðar. Þá væri það klárlega áminning um að vera með mismunandi aðgerðir í gangi á mismunandi landssvæðum eins og hefur verið.“

Spurður um stöðuna á faraldrinum segir Þórólfur að hann sé kominn „ansi vel niður.“ Ánægjulegt hafi verið að aðeins einn hafi greinst smitaður utan sóttkvíar í gær. 

„Þetta segir líka það að smitið er enn úti í samfélaginu. Fólk er að greinast sem ekki er hægt að rekja til annarra smitaðra eða rekja inn á einhverja áhættu þar sem fleiri hafa verið að greinast. Það segir okkur að veiran er enn þarna úti og það þarf mjög lítið til til þess að einn slíkur einstaklingur fari inn í stórt boð eða á stóran stað og þá getur hann skilið eftir sig fjölda smita,“ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert