Vafasamt að nota sitthvorn litakóðann

Hér má sjá Egilsstaðaflugvöll. Eftir að fólk kemur til Egilsstaða …
Hér má sjá Egilsstaðaflugvöll. Eftir að fólk kemur til Egilsstaða frá höfuðborginni er mælst til þess að það haldi sig til hlés í nokkra daga.

Sveitarstjóri Múlaþings, nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi, hefur ákveðnar efasemdir um litakóðunarkerfi almannavarna vegna Covid-19 og segist óttast það mest ef sóttvarnareglur yrðu mismunandi á milli svæða. Hann telur að það væri mjög vafasamt að nota annan litakóða fyrir landsvæði þar sem minna er um smit.

Austurland er það landsvæði sem hefur farið hvað best út úr faraldrinum með tilliti til smita. Þar eru nú engin smit og enginn í sóttkví en svæðið samt skilgreint sem rautt hættusvæði. 

Spurður hvað honum finnist um það segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings:

„Ég held að það sé erfitt að skilgreina ákveðin svæði, þó svo að það sé ekki smit þar, á öðru hættustigi en þar sem mest smit eru vegna þess að það er náttúrulega opið á milli svæða.“

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Þyrftu kannski að loka landshlutum samhliða

Hann óttast frekar að ef Austurland yrði skilgreint með öðrum hætti og þar giltu aðrar reglur, eins og sóttvarnalæknir hefur sagt að sé mögulegt, þá færi fólk að flykkjast þangað frá svæðum þar sem meira er um smit. 

„Ef menn færu að gera þetta þá þyrftu menn kannski að ákveða samhliða að loka landshlutum. Það eru menn ekki að gera. Það er ekkert bannað að fólk fari á milli landshluta og fólk bæði fer af okkar svæði yfir á þann landshluta þar sem mest er um smit og að koma þaðan,“ segir Björn. 

„Ég held að það yrði mjög vafasamt að fara að nota sitthvorn litakóðann.“

Hafið þið kallað eftir því að ferðir fólks til Austurlands frá meira smituðum landshlutum verði takmarkaðar?

„Við höfum verið að beina því til einstaklinga að fólk gæti að sér og haldi sig þá til hlés ef það hefur starfa sinna vegna eða einhvers annars þurft að fara á landshluta þar sem mikið er um smit,“ segir Björn. Hann tekur sem dæmi að á nokkrum vinnustöðum vinni starfsmenn heima eftir að þeir koma frá höfuðborginni.

„Við höfum haldið okkur nokkuð stíft við þessa fjöldatakmörkun þó hér séu engin smit. Til dæmis er sveitarstjórnarskrifstofunni hér á Egilsstöðum skipt upp í þrjú hólf og ekki samgangur á milli.“

Það þarf svo lítið til“

Aðspurður segir Björn að auðvitað finni hann fyrir einhverri þreytu í samfélaginu vegna harðra sóttvarnareglna þrátt fyrir fá smit. 

„Maður hefur alveg skilning á því en hins vegar þegar menn setjast niður og fara að velta þessu fyrir sér þá held ég að þú hittir engan mann sem hefur ekki hitt einhvern sem var að koma að sunnan eða norðan. Þá átta menn sig alveg á því að það eru bara alveg rök fyrir því að sömu reglur gildi hér og annars staðar. Það þarf svo lítið til.“

Björn bendir á að ef smit kæmi upp fyrir austan vegna þess að slakað yrði á takmörkunum þar gæti smitun orðið mjög hröð. 

„Þá gætu þær stofnanir sem skipta okkur miklu máli, eins og heilbrigðisstofnunin, hrunið býsna hratt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka