Meirihluti fjárlaganefndar leggur til aukið framlag til reksturs hjúkrunarrýma í fjárlögum. Ekkert bólar á úrlausnum í málinu og mikil sóun á fjármagni á sér stað á meðan aldraðir dvelja á LSH í stað þess að dvelja á hjúkrunarheimilum. Breytingatillagan var lögð fram og samþykkt þann 25. október sl. Á sama tíma hafa sjálfseignastofnanir beðið eftir svörum frá heilbrigðisráðuneytinu.
Verði breytingatillagan samþykkt í endanlegum fjárlögum tryggir það fjármögnun fyrir 100 hjúkrunarrýmum og er kostnaður áætlaður 1.350 milljónir króna.
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar Alþingis furðar sig á því hve langan tíma það hafi tekið að fá úrlausn mála fyrir aldraða sem þurfa hjúkrunarrými.
Hún segist hlynnt því að sjálfseignastofnanir fái tækifæri til að leysa vandann. „Sem þingmaður Samfylkingar aðhyllist ég opinberan heilbrigðisrekstur, en við getum ekki horft framhjá því að meirihluti hjúkrunarrýma á Íslandi eru rekin af sjálfseignatofnunum og einkaaðilum. Það er því ekki verið að breyta neinu þó við ákveðum að grípa Landspítalann í þessu tilviki. Grípa þá eintaklinga sem hanga þar inni að ósekju og veitum þeim sómasamlegri vistarverur. Það má líta á þetta sem mannúðarmál að vera ekki að geyma gamalt fólk á spítala þegar það getur verið í betra og manneskjulegra umhverfi,“ segir Helga Vala.
Að sögn Helgu Völu beri einnig að horfa til þess að kostnaður við einstakling á hjúkrunarheimili sé um 40 þúsund krónur á sólarhring en kostnaður af dvöl á sjúkrahúsi á bilinu 70-200 þúsund kr.
Ef miðað er við að hægt sé að spara t.a.m. 80 þúsund krónur á dag fyrir hvern þann sem dvelur á hjúkrunarheimili í stað þess að vera á LSH fer nærri að hægt hafi verið að spara ríkinu 250 milljónir króna í desember einum. Er þetta miðað við þær forsendur að 100 rými vanti á hjúkrunarheimilum og að meðaldagur kosti LSH 120 þúsund kr.
Eins og fram kom í umfjöllun mbl.is í gær hafa segjast fulltrúar sjálfseignastofanna hafa boðið hjúkrunarrými við Oddsson hótel og Urðarhvarf en erindum þeirra hafi ekki verið sinnt.
Umræðan snýst um þá aldraða sem eru vistaðir á sjúkrahúsum en geta dvalið á hjúkrunarheimilum. Talað hefur verið um að um 100 rými vanti upp á til að leysa vandann.