Einmanaleg jól smitist fólk um helgina

Rögnvaldur brýnir fyrir fólki að fara varlega í öll mannamót …
Rögnvaldur brýnir fyrir fólki að fara varlega í öll mannamót um helgina og bendir á að smit um helgina þýði einmanaleg jól. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svona klasasmit eru mjög fljót að skekkja töluna. Á meðan það er einhver veira úti í samfélaginu, eins og er núna, þá er þetta eitthvað sem við getum átt von á hvar og hvenær sem er,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um Covid-smit gærdagsins.

Tólf greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru ellefu í sóttkví. Sex af tólf smituðust í tengslum við klasasmit í húsnæði fyrir hælisleitendur í Hafnarfirði.

Rögnvaldur brýnir fyrir fólki að fara varlega í öll mannamót um helgina og bendir á að smit um helgina þýði einmanaleg jól:

„Þetta gætu verið afleiðingarnar af því. Núna eru 13 dagar til jóla og fyrsti jólasveinninn kemur í kvöld. Fólk er venjulega rúmar tvær vikur í einangrun. Þeir sem eru óheppnir um helgina gætu verið í einangrun og misst af jólunum. Það er því enn ríkari ástæða til að fara varlega.“

Mikilvægt að passa metrana í pottunum

Sundlaugar landsins opnuðu í gær og tóku fjölmargir landsmenn gleði sína vegna þess. Einhverjir hafa þó haft á orði að tveir metrar séu býsna teygjanlegt hugtak í heitum pottum víða.

Rögnvaldur segir ekkert slíkt hafa komið inn á borð almannavarna en brýnir fyrir fólki að tveggja metra reglan eigi svo sannarlega við í sundi.

„Þótt það sé klárt að veiran lifi ekki af í klórvatninu eru hausarnir upp úr vatninu og ef minna en tveir metrar eru á milli er alltaf leið fyrir veiruna. Fjarlægðin á því svo sannarlega við í sundinu og einnig í búningsklefanum auðvitað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert