Telja íslenska hönnun eftirhermu

Norska fyrirtækið telur að hönnun Icewear sé eftirherma af þeirra …
Norska fyrirtækið telur að hönnun Icewear sé eftirherma af þeirra eigin vöru. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Norskur fataframleiðandi hefur farið fram á að íslenska fatafyrirtækið Icewear hætti sölu, framleiðslu og markaðssetningu á grunnlagi fyrir konur þar sem það telur hönnunina of líka þeirra eigin. Hefur fyrirtækið gefið Icewear frest til mánudags til þess að bregðast við bréfi þess efnis. Framkvæmdastjóri Icewear vísar málinu á bug. Framkvæmdastjóri norska fyrirtækisins segir hönnunina augljósa eftirhermu. 

Hér má sjá hönnun Kari Traa.
Hér má sjá hönnun Kari Traa.
Hér má sjá hönnun Icewear.
Hér má sjá hönnun Icewear.


Vön því að sjá fyrirtæki herma eftir

Erik Hegbom er framkvæmdastjóri norska fataframleiðandans Kari Traa. Hann  segir í samtali við mbl.is að í huga fyrirtækisins leiki ekki nokkur vafi á því að Icewear hafi hermt eftir hönnun fyrirtækisins og hefur falið íslenskri lögfræðistofu umboð til reka málið hérlendis. Segir hann að gripið verði til frekari ráðstafana ef Icewear hafnar umleitunum fyrirtækisins. 

Málið snýr að meintu broti á lögum um vörumerki og lögum um óréttmæta viðskiptahætti.  

Erik Hegbom, framkvæmdastjóri Kari Traa.
Erik Hegbom, framkvæmdastjóri Kari Traa.


„Hönnun okkar er mjög einkennandi og við erum vön því að sjá önnur fyrirtæki herma eftir því sem við erum að gera eða þá að hönnunin sé innblásinn af okkar. Í þessu tilfelli er hönnunin allt of lík. Hún er 100% eftirherma. Þetta er augljósasta dæmið hingað til," segir Erik.

Að sögn Eriks hefur Kari Traa farið með svipaðar umleitanir til fyrirtækja í Svíþjóð, Sviss og Noregi vegna þess að þau þykja hanna vörur sem séu of of líkar þessari vöru fyrirtækisins. 

Allt hannað frá grunni 

Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, vísar því á bug að líkindi hönnunarinnar megi rekja til þess að Icewear hafi hermt eftir  norsku hönnuninni. „Málið á ekki við nein rök að styðjast.“ Bendir hann á að eitt umkvörtunarefnið snúi að munstri sem hann kallar nordíska stjörnu.  Að sögn hans var hún notuð af fyrirtækinu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

„Hver og ein einasta flík og munstur er hannað frá grunni af Icewear,“ segir Aðalsteinn. Þá segir hann að meðal annars sé nordíska stjörnumynstrið í logói fyrirtækisins og verið notað í  hundruð eða þúsunda skipta víðsvegar um heim. „Ég skil það vel að þeim lítist vel á vöruna okkar,“ segir Aðalsteinn og bætir við. „Þeir (Kari Traa) Eru eiginlega að lýsa yfir vonbrigðum yfir því í þessu bréfi hvað við erum að gera flotta hluti,“ segir Aðalsteinn.  

Hann bætir því við að hann hafði aldrei heyrt um vörumerkið Kari Traa fyrr en málið kom upp.

Nordíska stjarna Icewear.
Nordíska stjarna Icewear.

Umboðsaðili á Íslandi benti á málið 

Að sögn Eriks var það umboðsaðili á vörum fyrirtækisins á Íslandi sem hafi bent honum á líkindin. Umræddur umboðsaðili er Sportís. 

Að sögn hans er hönnunin sem styr stendur um nefnd Rose og er það flaggskip fyrirtækisins sem selur 500-600 þúsund stykki á hverju ári. Kom hún fyrst á markað fyrir nokkrum árum. Grunnlagið frá Icewear kom á markað fyrir um ári síðan að sögn Aðalsteins hjá Icewear. 

Íslenska lögmannsskrifstofan Árnason Faktor sem sérhæfir sig í m.a. í hugverka og einkaleyfarétti fer með málið fyrir hönd Kari Traa á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur Icewear, sem er í eigu Drífu, verið gefinn frestur til 14. desember að bregðast við kröfum Kari Traa. 

Uppfært kl 16:04

Samkvæmt leiðréttingu frá Aðalsteini kom umrætt grunnlag á markað í nóvember árið 2020  en ekki fyrir um ári síðan eins og haft er eftir honum hér ofar í greininni. Þá segir hann ennfremur að umrædd hönnun sé frá árinu 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert