Nemendur við Menntaskólann við Hamrahlíð sofa mun betur og upplifa minni kvíða í haust en áður. Þeir upplifa minna einelti og upplifa síður erfið samskipti, áreitni eða ofbeldi. Viðhorf nemenda til námsins og skólans er svipað og síðustu ár og heilt yfir jákvætt. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var meðal nemenda MH.
Nemendur í MH hafa líkt og menntaskólanemar um allt land stundað nám sitt í fjarnámi í haust og stóran hluta síðustu annar vegna samkomutakmarkana.
„Ég ætla að vera bjartsýnn á að ungt fólk hafi mikla aðlögunarhæfni og muni koma sterkt til baka þegar það verður hægt,“ segir Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Er um að ræða samræmda könnun sem lögð hefur verið fyrir frá árinu 2013 í mörgum framhaldsskólum landsins og nefnist Framhaldsskólapúlsinn.
Mestur munur mældist á svefni nemenda. Í haust telja 80% nemenda sig sofa nóg en í fyrra voru það um 50%. „Það er margt að fara í rétta átt. Nemendur virðast sofa betur og upplifa minni kvíða. Þeir greina frá minna áreitni eða ofbeldi. Þetta verður að teljast jákvætt,“ segir Bóas.
Tveir mælikvarðar er snúa að vellíðan og þunglyndi segja hins vegar eilítið aðra sögu. Mælingar sýna örlítið minni vellíðan en í fyrra en svipaða og árið þar á undan. Einnig mælast þunglyndiseinkenni hærra en í fyrra en lægra en árið 2018 svo dæmi séu nefnd.
„Auðvitað erum við að tala um meðaltöl og nemendur eiga miserfitt. Þeir upplifa mikið álag í náminu en eru samt almennt jákvæðir fyrir þessu. Sumum finnst þetta betra og auðveldara en öðrum finnst þetta erfiðara. En samkvæmt þessum niðurstöðum finnst þeim þau geta fengið góða aðstoð hjá kennurum og stoðþjónustu skólans,“ segir Bóas.
Hann bendir á menntskælingar séu alla jafna undir miklu álagi. „Álag nemenda er öðruvísi núna. Þau vinna minna, æfa minna og ferðast minna. Þau upplifa öðruvísi kröfur núna,“ segir Óskar.
„Auðvitað eru þetta bara tölur. En þær eru fínar sem mælikvarði til að átta sig á stöðunni. Mér finnst mikið af ungu fólki standa sig vel í erfiðum aðstæðum,“ segi Bóas.