„Erum að komast út úr þessari bylgju“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróun faraldurs kórónuveirunnar hefur undanfarið verið í rétta átt hér á landi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Lítið þurfi þó út af að bera til að afturkippur komi í faraldurinn.

„Við erum að komast út úr þessari bylgju, en lítið þarf til að hópsýkingar blossi upp aftur,“ sagði Þórólfur.

Virðist sem sumir hafi ekki farið að tilmælum

Hann vék máli sínu að fregnum helgarinnar af samkvæmum fólks. 

„Svo virðist sem sumir í samfélaginu hafi ekki farið að tilmælum um hópamyndanir og veisluhöld,“ sagði hann og benti á að það væru einmitt slíkar samkomur sem hefðu verið ein af þeim uppsprettum faraldursins sem glímt er við hér á landi.

Þórólfur segir ástæðu til að hvetja alla sem finni fyrir minnstu einkennum til að fara í sýnatöku og halda sig heima þar til niðurstaða fæst úr henni.

Faraldurinn núna haldist ágætlega niðri, þökk sé aðgerðum og samstöðu almennings. Smitstuðullinn nú undir einum, eða 0,6, sem sé góð þróun.

Uppistaðan í faraldrinum er að hans sögn áfram svokallaður blár stofn veirunnar. Ekki sé mikið um nýjar veirur sem komi inn í samfélagið.

Styttist í fyrstu sendingu bóluefnis

Loks bendir Þórólfur á að undanfarið hafi farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgað.

Mikilvægt sé að þeir séu allir skimaðir á landamærunum og haldi sóttkví eftir skimunina.

Þá fari vonandi að styttast í að fyrsta sending bóluefnis komi til landsins. Ekki sé hins vegar vitað í dag hvenær það verður eða hversu margir skammtar fáist í þeirri sendingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert