Aldraðir sem búa ekki á hjúkrunar- eða dvalarheimilum eða dvelja á öldrunardeildum eru númer sex í forgangsröðun fyrir bóluefni við Covid-19, jafnvel þó þeir glími við undirliggjandi sjúkdóma. Sóttvarnalæknir hefur heimild til að endurraða forgangsröðuninni og segir hann að slíkt verði að skoða í ljósi þeirra skammta sem til landsins berast.
Á undan öldruðum, þ.e. 60 ára og eldri, sem búa í heimahúsum eru fimm forgangshópar, ýmist heilbrigðisstarfsmenn eða aldraðir sem búa á hjúkrunar- og dvalarheimilum sem og á öldrunardeildum sjúkrahúsa.
„Ráðuneytið gaf út reglugerðina en sóttvarnalæknir hefur hins vegar, samkvæmt reglugerðinni, frjálsræði til þess að endurraða og stilla upp og svo fram vegis. Það verður að gera það í ljósi þeirra skammta sem við fáum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
Er þá útlit fyrir að þú munir setja aldraða sem eru veikir en búa samt sem áður heima hjá sér í meiri forgang?
„Við erum bara að undirbúa það núna, ég er ekki tilbúinn til að tala um einstaka hópa á þessu stigi. Ég minni á það að það felst mjög mikil vörn í því að bólusetja vel í kringum aldraða. Við myndum líta þannig á, þó það sé ekki alveg sannað með þetta bóluefni, þá líklega er það þannig að það er mjög ólíklegt að þeir sem eru bólusettir beri smit yfir í aðra. Það að bólusetja í kringum aldraða og viðkvæma einstaklinga er líka mjög mikil vörn.“
Fréttin hefur verið uppfærð. Athygli lesenda er vakin á því að það er mjög ólíklegt að þeir sem eru bólusettir beri smit yfir í aðra.