Lítið að gera hjá vændiskonum

Rannsókn lögreglu bendir til þess að lítið sé um vændisviðskipti …
Rannsókn lögreglu bendir til þess að lítið sé um vændisviðskipti á Íslandi. AFP

Lögreglu kemur á óvart hve lítil eftirspurn er hjá vændiskaupendum á Íslandi um þessar mundir. Lögreglufulltrúi segir mikið af auglýsingum í loftinu. Þetta kom fram í tíu daga rannsókn mansals- og vændisdeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór nýlega.

Lögregla fylgdist með þekktum vændiskonum á tíu daga tímabili.
Lögregla fylgdist með þekktum vændiskonum á tíu daga tímabili.

Að sögn Einars Guðbergs Jónssonar lögreglufulltrúa voru það innan við tíu manns sem voru nappaðir við vændiskaup á tímabilinu. „Við vorum að fylgjast með auglýsingum um vændi og meintum vændiskonum á tíu daga tímabili. Það sem við tókum út úr þessu er að framboð á auglýsingum er mikið en eftirspurnin er minni en við höfðum áætlað,“ segir Einar.

Lögregla þarf að sanna að greiðsla eða kynlíf hafi átt …
Lögregla þarf að sanna að greiðsla eða kynlíf hafi átt sér stað. Kristinn Ingvarsson

Viðurkenndu vændið 

Hann segir að lögreglan hafi haft afskipti af mönnum sem voru að koma frá þekktum vændiskonum. „Ef við náum að sanna á þá að þeir hafi verið að hitta vændiskonu og heitið þeim greiðslu, eða stundað kynlífið, þá kemur yfirleitt til sektargerðar. Í einhverjum tilfellum getur það orðið dómsmál. Þá þarf að horfa til þess hvort menn hafi áður gerst brotlegir við löggjöfina,“ segir Einar.  

„Svo var einnig rætt við nokkrar vændiskonur sem viðurkenndu vændi. Þær sögðu að það væri frekar lítið að gera,“ segir Einar. 

Gott að sjá stöðuna 

Hann segir að lögreglan hafi búist við því að meira væri um vændiskaup. „Sérstaklega út af magni auglýsinga. En það var í sjálfu sér gott að sjá stöðuna á Covid-tímunum,“ segir Einar. 

Hann segir vændiskonurnar erlendar en þær hafi allar þverneitað að hafa verið þvingaðar til iðju sinnar með nokkrum hætti. Einnig neita þær því að nokkur tengiliður sé við þær hér á landi. „Þær koma bara og segja að hér sé alla jafna nóg að gera,“ segir Einar. Sú virðist þó ekki hafa verið raunin nú. 

Vændiskaup eru refsiverð á Íslandi en ekki að bjóða það.
Vændiskaup eru refsiverð á Íslandi en ekki að bjóða það. Þorkell Þorkelsson

Miklar markaðsmanneskjur 

Vændisauglýsingar hérlendis eru að sögn Einars yfirleitt á netinu. Þær eru jafnvel íslensku og því augljóslega hugsaðar fyrir íslenskan markað. Spurður segir Einar að þær segist sjálfar standa að markaðsefninu en auglýsingarnar eru hýstar erlendis í löndum þar sem vændi er löglegt. Því er ekki hægt að sjá hver greiðir fyrir auglýsingarnar. 

Eru þær svona miklar markaðsmanneskjur? 

„Þær vilja meina það. Svo er spurning hversu trúverðugt það er,“ segir Einars. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert