Sóttvarnalæknir hefur í samráði við heilbrigðisráðherra ákveðið hvaða hópar munu njóta forgangs við bólusetningu við COVID-19 þegar fyrstu skammtar bóluefnis berast til landsins. Þetta er í samræmi við reglugerð þar að lútandi sem heimilar sóttvarnalækni að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar telji hann það nauðsynlegt og skal hann þá tilkynna það ráðherra með rökstuðningi.
Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Þar segir, að strax eftir jól sé fyrirhugað að hefja bólusetningu hjá framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni sem séu rúmlega 1.000 manns. Jafnframt verði hafin bólusetning hjá íbúum á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum sem séu 3.000-4.000 manns. Þegar næsta sending kemur í janúar/febrúar á næsta ári verði haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.
„Líkt og fjallað er um í reglugerð nr. 1198/2020 um bólusetningu gegn COVID-19 ber sóttvarnalæknir ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar, svo sem hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa.
Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir eiga náið samstarf um sóttvarnaráðstafanir og undirbúning bólusetninga. Ákvörðun sóttvarnalæknis um forgangsröðun sem hann greindi frá á upplýsingafundi almannavarna í dag og fram kemur í tilkynningu á vef embættis landlæknis er tekin að höfðu samráði við ráðherra og í samræmi við reglugerð þar að lútandi,“ segir í tilkynninguni.