Í fréttatilkynningu frá Regin fasteignafélagi, sem send var út vegna fréttar Morgunblaðsins um hönnun Hafnartorgs í Reykjavík og hve mikið henni væri ábótavant, kemur fram að rekstraraðili Hafnartorgs og eigendur þeirra verslana sem þar eru séu þolinmóðir.
Þá segir jafnframt að verslunareigendur taki fækkun ferðamanna með ró enda reynslumiklir aðilar á sviði verslunar og þjónustu. Þá fer sögum af veltuaukningu fataverslana sem hafa aðsetur á Hafnartorgi og vitnað er í eiganda Michelsen, eins rótgrónasta úrsmiðar á Íslandi. Hann segir að það hafi verið hans mesta heillaskref í rekstri frá upphafi að færa verslun sína á Hafnartorg.
Tilkynningin í heild sinni:
Þegar Hafnartorgið var opnað á síðasta ári var verslun í Kvosinni í Reykjavík nánast orðin útdauð og höfðu flest rými við götur Kvosarinnar orðið að veitingastöðum, krám eða hótelum. Skortur var á húsnæði fyrir öflug vörumerki sem kynnu að hafa áhuga og getu til að fá Íslendinga til að versla aftur í miðbænum. Sambærilegt húsnæði að gæðum og finna má í verslunarmiðstöðvum nútímans var ekki á lausu í miðborginni.
Því var Hafnartorgið byggt á reit sem áður var malarbílastæði og á svæði sem hafði haft lítið aðdráttarafl. Á sama tíma var verslun að færast æ ofar á Laugaveg og að hluta út á Granda. Miðborgin sjálf hefur hins vegar ávallt mikið aðdráttarafl, bæði fyrir borgarbúa og ferðamenn og því lá beint við að ýta undir aukna verslun og þjónustu sem stutt getur við þetta hlutverk hennar.
Það hafa hins vegar ýmsar hindranir verið á leiðinni. Erlendum ferðamönnum er ekki til að dreifa sem stendur og innlend verslun og þjónusta hefur almennt sætt miklum takmörkunum. Aðstandandendur Hafnartorgsins og verslunarmenn taka þó þessum áskorunum með ró og telja langtímahorfur góðar fyrir þennan nýjasta hluta Kvosarinnar og nærliggjandi hafnarsvæði sem nú er í uppbyggingu.
Kaupmenn á Hafnartorgi segja staðsetninguna henta sér og almennt ganga verslanir þeirra vel þrátt fyrir ástandið. Hjá versluninni Collections hefur mælst 100% aukning í sölu nú í desember, samanborið við sama mánuð í fyrra. Sömuleiðis hefur mikil veltuaukning orðið hjá Michelsen úrsmið frá því að verslunin var flutt frá Laugavegi í fyrra. Eigandi búðarinnar segir það hafa verið hans mesta heillaskref í rekstri að færa sig á Hafnartorg.
Þá er mikill stígandi í veltunni hjá H&M, H&M Home, Optical Studio og COS þrátt fyrir fækkun ferðamanna. Sömuleiðis hefur Maikai, sem selur acai-skálar, gengið vel frá því staðurinn var opnaður í júlí.
Svava Johansen eigandi NTC sem rekur verslunina GK Reykjavík á Hafnartorgi segist hafa óbilandi trú á því sem verslunarsvæði og það sé eðlilegt að tíma taki að byggja upp nýjan miðbæjarkjarna. Verslun GK hafi átt marga frábæra mánuði frá opnun og að íslenskir viðskiptavinir séu mjög ánægðir með svæðið sem sé með því flottara sem sést hafi í Reykjavík.
Bílakjallarinn undir Hafnartorgi er einnig orðinn fleirum kunnur en áður og fer bílum sem þar er lagt fjölgandi, þrátt fyrir fækkun ferðamanna. Um fjögur þúsund bílar fóru í gegnum bílakjallarann í síðustu viku, sem er nærri tvöföldun milli ára.
Það er viðbúið að tíma taki að byggja upp umferð um ný svæði í grónum borgum og þá liggur það í hlutarins eðli að borgarþróun er nokkuð hægfara fyrirbæri. Við höfum hlustað á raddir sem kallað hafa eftir fjölbreyttari starfsemi á Hafnartorgi og við höfum sætt færis þegar tækifæri hafa gefist til að gera einmitt þetta. Við opnuðum "pop-up"-jólabar í fyrra sem sló í gegn og þá hafa fjölmargir viðburðir verið haldnir á Hafnartorgi sem gengið hafa vel, þar má m.a. nefna Hönnunarmars og ýmsa smærri tónlistar- og listviðburði.
Það er vissulega rétt að það er mikilvægt að fólk hafi fleiri kostum úr að velja á svæðinu og það er hluti af því að umferðin aukist enn frekar um Hafnartorg. Við höfum litið svo á að með því að leigja sterkum aðilum með alþjóðleg vörumerki stærstu rýmin, þá sköpum við grundvöll fyrir smærri aðila að bjóða upp á verslun og þjónustu þar, á jöðrum og í nágrenni torgsins.
Þá mun svæðið, með reitunum í kring, loksins verða fullbyggt á næsta ári sem gerir það í heild sinni meira aðlaðandi heim að sækja. Það er hins vegar alls ekki rétt að verslun gangi illa á Hafnartorgi og við sjáum aðeins fram á að hún muni verða enn blómlegri með tímanum. Við erum þolinmóður aðili með mikla reynslu af fasteignarþróun í miðbænum og við sjáum fram á bjarta tíma í Kvosinni fyrir bæði verslun og allt fólkið sem þar er á ferli.