Salan ekki gáfuleg ef „ríkissjóður er upp við vegg“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/​Hari

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir um tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum íslenska ríkisins í Íslandsbanka óvænta. Vandlega þurfi að skoða hvort tímasetning sölunnar sé rétt í ljósi aðstæðna, bæði í efnahagslífinu hér á landi og úti í heimi.

Tillögur BR sama efnis voru viðraðar í marsmánuði en frá þeim var horfið vegna nýuppsprottins heimsfaraldurs. 

„Þarf að skoða þetta vandlega,“ segir Logi í samtali við mbl.is. „Það væri ekki gáfulegt að ráðast í eitthvað svona á meðan ríkissjóður er upp við vegg,“ bætir hann við. 

Formaður stjórnar bjartsýnn

Það var annar tónn í Hallgrími Snorrasyni, stjórnarformanni Íslandsbanka, þegar mbl.is ræddi við hann. Hann sagði tímasetninguna ekki endilega vera slæma og að gott væri að blása nýju lífi í bankann með dreifðara eignarhaldi.

„Ég er þokkalega bjartsýnn á þetta. Finnst þetta bara ágætis mál,“ segir Hallgrímur.

Hallgrímur Snorrason, stjórnarformaður Íslandsbanka.
Hallgrímur Snorrason, stjórnarformaður Íslandsbanka. mbl.is/Frikki

Spurður að því hver mögulegur ávinningur yrði af því að selja eignarhlut ríkisins segir hann að mögulega myndi það glæða bankann nýju lífi. 

„Ávinningurinn er að bankinn komist á markað og komist í kauphöll þannig að fleiri aðilar komist að bankanum en ekki bara ríkið. Þannig kemst nýtt blóð inn í bankann.“

„Ef vel tekst til og áhuginn er mikill þá er það bara í góðu lagi, ef ekki þá þarf bara að skoða þetta betur eða þá síðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert