Þrjár sviðsmyndir vegna bólusetningar

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson. Ljósmynd/Lögreglan

Vinnuhópar eru með þrjár sviðsmyndir uppi varðandi bólusetningu við kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu. Sú fyrsta snýr að húsnæðinu á Suðurlandsbraut þar sem skimun hefur farið fram. Önnur snýr að tveimur til þremur húsum í Reykjavík sem yrðu á suður-, austur-, og vestursvæði og sú þriðja að sjö til átta húsum í Reykjavík, Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ.

Síðastnefndi möguleikinn verður nýttur „ef við erum með allt á útopnu“, að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá á hann við ef skammtarnir verða margir og að margir hópar leggi hönd á plóg við bólusetninguna. „Ef það kemur mjög mikið magn í einu verðum við ekki lengi af þessu því það vilja allir vera með,“ segir Óskar.

Allt fer þetta eftir því hversu margir skammtar berast hingað til lands. Heilbrigðisráðuneytið greindi frá því í síðustu viku að áætlun Pfizer um afhendingu bóluefna hafi raskast og að færri skammtar komi hingað um áramótin en gert var ráð fyrir. Í janúar og febrúar er von á bóluefni fyrir um fimmtán þúsund manns en fram kom í tilkynningu ráðuneytisins að nánari upplýsingar um bóluefni á fyrsta ársfjórðungi næsta árs liggi fyrir á næstu dögum.

Bóluefnið frá Pfizer og BioNTech er væntanlegt hingað til lands.
Bóluefnið frá Pfizer og BioNTech er væntanlegt hingað til lands. AFP

Í pistli sínum í Morgunblaðinu í morgun segir Óskar ótímabært að tala um hvenær bólusetning hefst hér á landi þó að væntingar séu bundnar við að hún geti hafist á fyrri hluta næsta árs. Í samtali við mbl.is segist hann þarna eiga við almenna bólusetningu en ljóst sé að forgangshópar fái fyrstu sprauturnar um leið og skammtarnir berast í byrjun ársins. „Það eru ansi mörg lönd farið að tala um að geta byrjað á milli jóla og nýárs en mér sýnist Þórólfur  [Guðnason sóttvarnalæknir] ekki tala alveg þannig fyrir okkur,“ segir hann.

Unga fólkið gæti farið á undan í röðina

Skipulagning bólusetningarinnar á eftir að koma betur í ljós. „Segjum svo að þú sért með eitthvert eitt efni sem þú viljir frekar að fari í einhvern sérstakan hóp og það reynist betur á unga fólkið. Þá getur verið að þú viljir velja unga í áhættuflokk frekar á undan gamla fólkinu ef þú ert með það efni,“ nefnir hann sem dæmi. „Það getur verið að það sé læknisfræðilega skynsamlegra að fara einhverja aðra leið en algjörlega beint í röðina.“

Óskar bendir á að reglugerð stýri því hverjir fái fyrstu sprauturnar og að sóttvarnalæknir annist framkvæmdina. „Við þurfum að vita hvað við eigum að bólusetja marga og svo kemur fólk með strikamerki,“ segir hann um þátt heilsugæslunnar en bætir við að skammtar verði sendir á hjúkrunarheimili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert