Segir klofning yfirvofandi

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grenivíkur. Þar búa um 370 manns.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grenivíkur. Þar búa um 370 manns. Ljósmynd/Grenivík

Tillaga um að lýsa yfir andstöðu við áform um að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi yrði lögfestur, var felld naumlega á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær. Alls greiddu 54 atkvæði með tillögunni en 67 gegn.

Atkvæðisréttur á landsþinginu fer eftir stærð sveitarfélaga, en þau 20 sveitarfélög sem lögðu tillöguna fram höfðu til að mynda aðeins 19 atkvæði af 136 á þinginu.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri á Grenivík, bar tillöguna upp en hann segir í samtali við Bæjarins besta að Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambandsins og bæjarstjóri í Hveragerði, hafi talað mjög ákveðið gegn henni.

Telur að ráðherra guggni

Samkvæmt áformum sveitarstjórnarráðherra stendur til að lögfesta lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi sem 250 árið 2022 og 1.000 árið 2026. 

Þrátt fyrir að tillagan hafi verið felld segir Þröstur að niðurstaðan hljóti að vera mikið áfall fyrir formann og stjórn Sambandsins í ljósi þess hve mjótt var á munum. Alls höfðu tíu af ellefu stjórnarmönnum lagst gegn henni, allir nema Gunnar Einarsson úr Garðabæ.

„[Niðurstaðan] staðfestir að formaður hefur farið með rangt mál um breiða samstöðu sveitarstjórnarstigsins um íbúalágmark, gagnvart þjóð og þingi,“ segir Þröstur. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hafi hins vegar opnað á það á þinginu að halda áfram með frumvarp um styrkingu sveitarstjórnarstigsins án ákvæðis um íbúalágmark. Telur Þröstur að það verði niðurstaðan.

Þröstur segir Sambandið þurfa að „horfa inn á við“ og skoða hvernig það sinnir hlutverki sínu í hagsmunagæslu fyrir aðildarfélög. „Það eru líkur á að minni sveitarfélög myndi með sér formlegan félagsskap á næstunni til að sinna eigin hagsmunagæslu nema mikil stefnubreyting verði á störfum Sambandsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert