Þingi frestað fyrir jól

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti

Fundum Alþingis hefur verið frestað fyrir jól. Síðasta þingfundi fyrir jól var slitið á ellefta tímanum í kvöld.

Gert er ráð fyrir að þingið komi aftur saman 18. janúar 2021 samkvæmt þingsályktunartillögu forsætisráðherra um frestun á fundum Alþingis.

Síðasta mál sem afgreitt var á þinginu var lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði og skiptingu þess. Samstaða var um mikilvægi þess að afgreiða málið þvert á flokka þó að tekist hafi verið á um útfærslu á skiptingu orlofsins á milli foreldra. 

Stór mál voru afgreidd; fjárlög 2021 og fimmtu fjáraukalög ársins en fjármálaáætlun til ársins 2025 voru afgreidd á fimmtudag.

Lög um kynrænt sjálfræði, breytingar á búvörulögum vegna úthlutunar tollkvóta og greiðslur til íþróttafélaga vegna Covid-19 voru afgreidd sömuleiðis í dag.

Öll tímasetningarmál kláruð

Öll tímasetningarmál voru afgreidd sem og öll mál sem tengjast heimsfaraldri Covid-19. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis þakkaði þingflokksformönnum sérstaklega og sagði samstarf þeirra og samningsvilja hafa verið forsendu þess að svo vel tókst til við afgreiðslu mála fyrir jól.

43 frumvörp hafa verið afgreidd það sem af er þessu þingi, en hafa ber í huga að þingið hófst óvenju seint eða 1. október. 12 þingsályktunartillögur hafa verið samþykktar á sama tímabili.

Eitt frumvarp bíður annarrar umræðu en það snýr að viðurlögum vegna hlutfalls kynja í stjórn samvinnufélaga. Nokkur ágreiningur hefur staðið um það mál. 44 þingsályktunartillögur eru í nefnd.

74 frumvörp bíða í nefnd, þ.e. mælt hefur verið fyrir þeim en þau ekki afgreidd úr nefndinni til annarrar umræðu. 54 þingsályktunartillögur og 51 frumvarp bíða fyrstu umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert