Einn greinst á Íslandi með nýja afbrigðið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fundaði í dag með vísindamönnum í Bretlandi um nýjan stofn kórónuveirunnar sem veldur Covid-19. Einn einstaklingur hefur greinst með þetta afbrigði á landamærunum hér á landi.

Þetta staðfestir Þórólfur í samtali við mbl.is. Einstaklingurinn hafi farið í einangrun og engin dreifing hafi orðið á þessu afbrigði. 

Þórólfur segir að með faraldsfræðirannsóknum og líkanareikningi hafi verið reiknað út í Bretlandi að það sterkar líkur séu á því að þetta afbrigði sé meira smitandi en önnur afbrigði.

Einnig sé litið til útbreiðslu þar sem aðgerðir hafa verið mjög harðar. 

„Það er á þeim grunni sem þeir ákveða að fara í þessar hörðu lokanir í Bretlandi,“ segir Þórólfur.

Umfang ekki þekkt

Hann segir að í Bretlandi hafi bara hluti af stofnum verið raðgreindir af þeim sem hafa greinst þar. Það sé ekki eins og hér þar sem allir stofnar eru raðgreindir.

„Þannig að þeir vita ekki hvert umfangið af stofninum er, hversu mikil útbreiðslan raunverulega er.“

Þórólfur segir að ekki sé vitað hvað veldur því að þessi stofn sé meira smitandi. Hægt sé að vita hver stökkbreytingin sé en ekki endilega ennþá hvað það er sem skýrir það að hann sé meira smitandi. 

Margt óljóst

„Það á margt eftir að koma í ljós. Þetta eru bara byrjunarniðurstöður, það er ekkert sem gefur það til kynna að hann valdi verri sjúkdómi, svo er verið að rannsaka núna hvort að það sé eitthvað sem valdi því að bólusetningin virki ekki á þennan stofn – það er ekkert sem bendir til þess,“ segir Þórólfur um efni fundarins sem hann sat í dag. 

„Þær rannsóknir eru að fara í gang núna og þau bjuggust ekki við niðurstöðum úr því fyrr en á milli jóla og nýárs.“

Þórólfur bendir á að ekkert land sé með tvöfalda skimun við landamærin eins og við erum með, það sé öruggt kerfi. Því sé kannski ekki ástæða til að fara að ræða frekari aðgerðir á landamærum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka