Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði á fimmtudag íslenska ríkið af kröfu manns, sem fengið hafði drómasýki og slekjuköst í kjölfar bólusetningar við svínaflensu á heilsugæslu árið 2009.
Maðurinn byggði málsókn sína einkum á því að hann hefði með bólusetningunni fylgt tilmælum yfirvalda. Bólusetningin hefði valdið honum tjóni sem ríkinu bæri að bæta.
Fram kemur í dóminum að Sjúkratryggingar Íslands féllust árið 2015 á bótarétt mannsins. Taldi stofnunin meiri líkur en minni á því að hann hefði orðið fyrir alvarlegum fylgikvilla bólusetningar.
Var varanlegur miski hans metinn 20 stig og varanleg örorka að lágmarki 14%. Fékk hann greiddar hámarksbætur á þessum grundvelli, samtals rúmlega tíu milljónir króna að meðtöldum vöxtum.
Maðurinn taldi afleiðingar bólusetningar vanmetnar af Sjúkratryggingum Íslands og aflaði af því tilefni matsgerðar sérfræðilæknis í heila- og taugasjúkdómum. Hann sagði drómasýkina hafa komið í veg fyrir hann geti stundað nám og að hann sé nú upp á skilning vinnuveitanda kominn.
Fyrir dómi bar Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, sem starfaði sem yfirlæknir á sóttvarnarsviði Embættis landlæknis á árum svínaflesnu, vitni um aðdraganda þess að umrætt bóluefni var keypt. Fram kom í vitnisburði Þórólfs að fyrirtækið GlaxoSmithKline hafði rannsakað bóluefnið sitt á þúsundum einstaklinga, þó þannig að það hefði þá verið efni með öðrum stofni af veirunni.
Þá gera sóttvarnarlög ráð fyrir því að bregðast þurfi skjótt við aðsteðjandi heimsfaraldri með bólusetningu og markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu vegna bóluefnisins lá fyrir.
Telst því ósannað að slegið hafi verið af lögbundnum öryggiskröfum af hálfu ríkisins.
Ekki þótti sannað að bóluefnið hafi verið haldið ágalla sem gæti orðið grundvöllur bótaskyldu samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð vegna þess að heilbrigðisyfirvölum var ekki kunnugt um aukaverkun þegar bóluefnið var boðið manninum „og verður ekki önnur ályktun dregin af gögnum málsins en að slík þekking hafi ekki verið fyrir hendi á sviði lyfjafræði eða læknavísinda á umræddum tíma,“ segir í dómnum.