Síðustu þrjá daga hafa 33 greinst með kórónuveiruna innanlands og 12 utan sóttkvíar. Þeir sem eru að greinast tengjast vinahópum og hefur það gengið vel að rekja flest smit. Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi.
27 liggja á Landspítalanum vegna Covid-19. Fimm eru með virk smit, þrír á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél.
Lítið þarf til að afturkippur komi í faraldurinn. Vísbendingar eru uppi um að faraldurinn sé á uppleið en tölur næstu daga munu taka af allan vafa um það. Fólk er hvatt til að halda sig heima við, sýna yfirvegun, hugsa hvert um annað og tryggja hvert öðru gleðileg jól.
Uppistaðan í faraldrinum er sami stofn og greindist í ágúst, sem hefur verið kallaður bláa veiran.
Samkvæmt upplýsingum frá Bretlandi virðist stökkbreytt afbrigði veirunnar eiga auðveldara með að dreifa sér en aðrir. „Það sem er vitað á þessari stundu er að þetta afbrigði er með óvenjumargar stökkbreytingar á þessu svokallaða spike-próteini,“ sagði Alma og bætti við að þetta afbrigði virðist ekki valda erfiðari sjúkdómi en önnur. Bólusetning er einnig talin virka gegn því en verið er að rannsaka afbrigðið betur.