Niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu var að umsókn Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall væri ósamrýmanleg málsástæðum og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og lýsti dómstóllinn því umsóknina ótæka.
Dómstóllinn taldi að sektirnar sem umsóknin beindist að heyrðu ekki undir 7. grein mannréttindasáttmálans um að engin refsing skuli dæmd án laga, því ekki væri hægt að flokka sektirnar sem „refsingu“.
Málið tengist hinu svokallaða Al-Thani-máli Kaupþingsmanna, en lögmennirnir Gestur og Ragnar voru sektaðir af ríkinu fyrir að segja sig frá málinu í apríl 2013.
Þegar aðalmeðferð átti að fara fram mættu Gestur og Ragnar ekki til þinghalds og voru þeir því leystir frá verjendastörfum í málinu og skjólstæðingum þeirra skipaðir nýir verjendur. Voru þeir dæmdir af héraðsdómi til þess að greiða eina milljón hvor í sekt.
Þeir áfrýjuðu því til Hæstaréttar, sem staðfesti ákvörðun héraðsdóms og Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði því síðan í október 2018 að íslenska ríkið hefði brotið á þeim. Gestur og Ragnar voru ekki sáttir við þá niðurstöðu og fóru þess því á leit við yfirdeildina að hún tæki málið fyrir.