Athöfn vegna fyrstu bólusetningarinnar

Frá bólusetningu í Bandaríkjunum. Þar er fólk nú þegar bólusett …
Frá bólusetningu í Bandaríkjunum. Þar er fólk nú þegar bólusett með bóluefni Pfizer/BioNTech. AFP

Bólusetning gegn kórónuveirunni hefst á þriðjudag þegar starfsfólk í framlínustörfum og íbúar á hjúkrunarheimilum fá fyrri sprautuna af tveimur gegn veirunni. Seinni sprautuna fær fólkið að þremur vikum liðnum.

Lyfja­stofn­un veitti í gær bólu­efni fyr­ir­tækj­anna Pfizer og Bi­oNTech skil­yrt markaðsleyfi á Íslandi eft­ir að bólu­efnið fékk grænt ljós frá Lyfja­stofn­un Evr­ópu. 

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir allt tilbúið varðandi bólusetninga þessara hópa og þriðjudagur og miðvikudagur fari í fyrri sprautuna. 

Starfsmenn í framlínu eru af Landspítalanum og heilsugæslu um allt land.

Íslensk stjórn­völd hafa tryggt kaup á 170 þúsund skömmt­um af bólu­efn­inu, sem duga til að bólu­setja 85.000 manns. Í fyrstu send­ingu koma tíu þúsund skammt­ar en eft­ir það þrjú þúsund skammt­ar í viku hverri fram í mars. Eng­ar upp­lýs­ing­ar hafa feng­ist um af­hend­ingu síðar meir.

Í löndum þar sem bólusetning er nú þegar hafin hefur verið athöfn í kringum fyrstu bólusetninguna líkt og þegar níræð kona var bólusett í Bretlandi. Óskar segir ekki ákveðið hver verði bólusettur fyrstur hér á landi.

„Þetta verður annars vegar einhver úr framlínunni, þar sem einhver athöfn verður, og svo förum við á hjúkrunarheimili þar sem einhver íbúi verður bólusettur fyrstur,“ segir Óskar og bætir við að þetta gerist laust fyrir hádegi þriðjudaginn 29. desember. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert