Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ánægjulegt að hlutfall jákvæðra veirusýna hafi verið jafnlágt og raun bar vitni í gær, innan við eitt prósent. Fjöldi smita sé sambærilegur og síðustu daga en halda þurfi þeirri vinnu áfram. Þá þurfi fólk að passa sig sérstaklega á jólunum.
Tólf kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og voru níu í sóttkví við greiningu. Þórólfur segir að þeir sem greindust hafi tengsl við fyrri smit, sem sé jákvætt. „Það er gott að við séum ekki að finna mikið af [smituðu] fólki sem við getum ekki rakið. En veiran er þarna úti og það þarf ekki mikið til að hún spretti aftur upp.“
Mikið hefur verið um fólk á faraldsfæti síðustu daga í undirbúningi jólanna og verslanir vel sóttar. Þórólfur bendir á að það sjáist þó ekki af smittölum fyrr en eftir um það bil viku ef fólk smitast í dag. Því er ótímabært að segja til um hvernig jólaösin tókst til með tilliti til farsóttarinnar.
Lokað verður á skimunarstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut á jóladag og aðra daga jóla verður mönnun minni en venja er. Þannig gæti reynst erfiðara fyrir þau sem eru í sóttkví að komast að í sýnatöku. Þórólfur bendir þó á að Læknavaktin sé opin öll jólin en þar getur fólk með einkenni farið í sýnatöku. „Ef einhver er með einkenni er um að gera að hafa samband til að fá sýni tekið sem fyrst. Það skiptir öllu máli að þeir sem eru með einkenni greinist eins fljótt og hægt er.“
Þórólfur hefur sjálfur verið í sóttkví frá því í síðustu viku. Hann fór í seinni skimun í morgun og bíður þess nú að fá úr því skorið hvort hann fær að verja jólunum með fjölskyldunni en niðurstöður ættu að liggja fyrir síðar. „Ég vona svo sannarlega að ég losni úr sóttkvínni en maður veit ekki fyrr en niðurstaðan kemur.“