Mál tengt ráðherra sem var á meðal þeirra sem voru í fjölmennu samkvæmi í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi hefur ekki komið á borð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri deildarinnar, aðspurður.
Í morgunfréttum Rúv var greint frá því að hvorki Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, né Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefðu verið í Reykjavík í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum aðstoðarmanna þeirra.
Mbl.is hefur hvorki náði í Róbert Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, né aðstoðarmann dómsmálaráðherra í morgun. Ekki náðist heldur í aðstoðarmann félags- og barnamálaráðherra.
Uppfært kl. 8.54:
Róbert Marshall segist ekki vita hvaða ráðherra var í samkvæminu.
Uppfært kl. 9.08:
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist aðspurð ekki vita um hvern ræðir.
Uppfært kl. 9.24:
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var fyrir austan með fjölskyldu sinni í gærkvöldi, að sögn aðstoðarmanns hans.
Uppfært kl. 9.31:
Róbert Marshall segist geta staðfest að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi ekki verið í umræddu samkvæmi. Verið er að afla upplýsinga um málið að hans sögn.