Oddur Þórðarson
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir það sorglegt ef fólk fer ekki gætilega í veisluhöldum. Því svaraði hann þegar hann var spurður út í samkvæmi sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var viðstaddur í gærkvöldi ásamt á fimmta tug annarra. Hann sagðist þó ekki geta tjáð sig um það mál þar sem það væri á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Rögnvaldur segist hafa áhyggjur af stöðu Íslendinga í kórónuveirufaraldrinum og segir að sóttvarnayfirvöld séu undir það búin að veiran fari á flug eftir jól.
Útgöngubann hefur ekki verið rætt sérstaklega en að sögn Rögnvalds eru allir möguleikar til skoðunar.
„Við höfum áður sagt að við höfum áhyggjur af þessum árstíma og við gerum það enn,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Við erum að ganga í gegnum dimmasta tíma ársins núna og það er eðlilegt að fólk vilji vera mikið saman og lyfta sér upp en við höfum verið að biðla til fólks að gera það ekki.“
Spurður að því hvað gera skal í ljósi þess að núgildandi samkomutakmarkanir virðast ekki duga til þess að knésetja veiruna segir Rögnvaldur að allt sé til skoðunar.
Hefur verið rætt um að setja á útgöngubann?
„Það hefur ekki berið rætt sérstaklega, nei. Í okkar plönum eru þó allir möguleikar til skoðunar.“